Hart deilt um skipan í embætti hæstaréttardómara

Alþingishúsið.
Alþingishúsið.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, var á Alþingi í dag sakaður um að hafa brotið gegn jafnréttislögum, jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og jafnréttisákvæðum stjórnsýslulaga og farið gegn framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum þegar hann skipaði í embætti hæstaréttardómara á síðasta ári. Björn hafnaði því að hafa brotið jafnréttislög með stöðuveitingunni og sagðist hafa byggt skipun sína í embætti hæstaréttardómara á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum enda teldi hann þann umsækjanda sem skipaður var hæfastan umsækjanda til að gegna embættinu með hliðsjón af þeim sjónarmiðum.

Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar, fór fram á umræðu utan dagskrár um málið og sagði hún að dómsmálaráðherra gæti ekki boðið þingheimi upp á þá fráleitu túlkun á jafnréttislögunum, að á grundvelli tölfræði um fjölda fólks í ákveðnum stöðum væri verið að binda veitingarvaldhafa af því að skipa konur í embætti. Vitaskuld ætti hæfni umsækjenda að ráða stöðuveitingum og ef taka ætti konu fram yfir karl yrði hún að vera að minnsta kosti jafn hæf eða hæfari en karlinn. Það mat hefði kærunefnd jafnréttismála lagt til grundvallar þegar hún komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið gegn jafnréttislögum og dómstólar hefðu einnig byggt á slíku mati í málum af þessu tagi.

Jóhanna vísaði einnig til ummæla Davíðs Oddssonar, um að kærunefndin ætti að vinna í anda dómsúrskurða sem fallið hefðu. Sagði Jóhanna að fordæma bæri embættisafglöp dómsmálaráðherra harðlega og að það væri áfall fyrir réttarkerfið og stjórnsýslureglur, að réttarvitund og viðhorf sjálfs dómsmálaráðherrans og forsætisráðherra væru jafn hraksmánarleg gagnvart jafnréttislögum og raun bæri vitni. Þetta viðhorf væri mikið áfall fyrir jafnréttisbaráttuna og raunar lítilsvirðing við þjóð sem kenndi sig við jafnrétti og mannréttindi.

„Veikburða rök ráðherrans eru ámáttleg þegar hann snýr öllu á hvolf í jafnréttislögunum og misskilur þau og mistúlkar sundur og saman eftir eigin geðþótta. Hroki og vankunnaátta hæstvirts forsætisráðherra og dómsmálaráðherrans á jafnréttislögum er hrópandi. Hvernig dettur hæstvirtum dómsmálaráðherra í hug að halda fram, að ef hann væri skuldbundinn af því að fara að jafnréttislögum þá hefði það átt að koma fram í umsókn Hæstaréttar? Er ráðherra virkilega alvara þegar hann lætur að því liggja að kærunefnd jafnréttismála sé að skipta sér af ákvörðun sem henni komi ekki við?" spurði Jóhanna.

Hún sagði að dómsmálaráðherra gerði ekkert með að hann sé ekki einasta sekur um brot á jafnréttislögum heldur gangi hann einnig á svig við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinna og jafnréttisákvæði stjórnsýslulaga og brjóti gegn framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum þar sem lögð sé áhersla á að jafnréttissjónarmið séu tryggð við stöðuveitingar. „Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra, sem svona gróflega brýtur lög og reglur, verið látinn fjúka, en hér á landi er allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir komast upp með allt. Ef ráðherrar eru ósáttir við lög þá eiga lögin bara að víkja en ekki þeir, að þeirra mati," sagði Jóhanna.

Hún sagði að vera kynni, að kærunefnd jafnréttismála hefði komist að annarri niðurstöðu ef dómsmálaráðherra hefði skipað annan hvorn þeirra karla sem Hæstiréttur taldi vera heppilegastan í starfið og ekki væri einu sinni víst að konan hefði kært í því tilviki. Sagði Jóhanna að ráðherrann teldi sig hafinn yfir lög um grundvallar mannréttindi eins og jafnréttislög og hann skuldaði þjóðinni svör en ekki útúrnúninga og hundalógík.

Björn Bjarnason hafnaði því að hann hefði brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. „Ég byggði skipun tillögu mína um skipan í embætti hæstaréttardómara á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum enda tel ég þann sem skipaðan var hæfastan umsækjanda til að gegna embættinu út frá þeim sjónarmiðum," sagði Björn.

Hann sagði að mörg fordæmi væru því til staðfestingar að ráðherrar hefðu meira svigrúm til málefnalegra ákvarðana um embættisveitingar en kærunefnd jafnréttismála teldi í þessu máli. Vísaði Björn m.a. til álits umboðsmanns Alþingis frá árinu 1997 sem hefði komist að þeirri niðurstöðu um nefndina og valdheimildir hennar, að nefndin yrði að taka mið af þeim sjónarmiðum, em atvinnurekandinn lagði til grundvallar ákvörðun sinni, að því tilskyldu að þau hefðu verið málefnaleg og lögmæt. Því yrði ekki fallist á að ákvæði jafnréttislaga færðu kærunefndinni sjálfstæða heimild til að byggja á öðrum sjónarmiðum en veitingarvaldshafi studdist löglega við.

Björn sagði að þetta álit segði meira en mörg orð og hávær og hann hefði haft sjónarmið sem þessi að leiðarljósi við mat á ósk um skaðabætur og eins mat á því hvort um sannanlegt fjárhagslegt tjón sé að ræða. Björn sagðist nýlega hafa skipað Hjördísi Hákonardóttur, sem kærði embættisveitinguna til kærunefndarinnar, í embætti dómstjóra á Suðurlandi og heildarlaun hennar þar væru hærri en nemi launum hæstaréttardómara.

Björn sagði ráðherra bæri pólitíska ábyrgð á athöfnum sínum eða athafnaleysi gagnvart Alþingi. Þessi ábyrgð væri pólitísk en ekki lagalegs eðlis og algerlega komin undir mati Alþingis hverju sinni.

Jóhanna spurði Björn m.a. hvort hann teldi rétt að breyta fyrirkomulagi við skipan dómara en Björn sagðist ekki vera á þeirri skoðun. „Á hinn bóginn finnst mér rétt að ræða þessi mál eins og allt annað, sem lýtur að því að finna leið til að komast hjá þrefi og þrasi mánuðum saman um lögmæta ákvörðun um skipan manns í Hæstarétt. Við stöndum þó jafnan frammi fyrir því að einhver einn ber ábyrgðina á valinu að lokum og það þarf að vera unnt að kalla hann til pólitískrar ábyrgðar," sagði Björn.

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Björn Bjarnason og Halldór Ásgrímsson, dómsmálaráðherra, ræðast við.
Björn Bjarnason og Halldór Ásgrímsson, dómsmálaráðherra, ræðast við.
mbl.is