60 milljóna Porsche til Íslands

mbl.is/Hilmar Bragi

Á næstu dögum verður sportbíllinn Porsche Carrera GT frumsýndur á Íslandi en bíllinn kom til landsins nú síðdegis með flugvél Bláfugls. Bíllinn er metinn á um 60 milljónir króna. Porsche hefur framleitt sportbíla síðan 1948 og hafa þeir allir verið hannaðir með það að markmiði að eigendur þeirra gætu notað þá í akstursíþróttum, ekki síst í kappaksturskeppnum. Á myndinni sést bíllinn á Keflavíkurflugvelli í dag og án efa munu margir vilja berja hann augum.

Bíllinn er hannaður með það fyrir augum að vindviðnám sé sem minnst og stöðugleiki í akstri sem mestur. Innbyggð vindskeið að aftan rís sjálfkrafa við 120 km/klst. og þrýstir afturhlutanum niður til að tryggja veggrip og stöðugleika. Vélin er í miðjunni þannig að þyngdarmiðjan er mitt á milli fram- og afturhjóla. Bensíngeymirinn er aftan við sætisbökin og fyrir framan vélina, eins og á kappakstursbílum, og gerir það m.a. að verkum að álagsdreifing á hjólin er sú sama og jöfn við mismunandi akstursálag sem er eitt af grunnatriðum góðra aksturseiginleika. Þungamiðja bílsins er mjög neðarlega vegna þess hve hann er lágur og vél- og drifbúnaður neðarlega. Fyrir bragðið getur Carrera GT farið mjög hratt í beygjum.

Aðalefniviður í yfirbyggingunni er koltrefjaefni sem hefur alla eftirsóknarverðustu eiginleika stáls en auk þess þyngd í lágmarki og hámarksstyrk. Vélin er 10 ventla, 612 hestöfl og gírkassinn er 6 gíra. Undirvagninn er sömu gerðar og í kappakstursbílum og hægt er að stilla hann á ýmsa vegu.

mbl.is