Íslensku forsetahjónin í samkvæmi til heiðurs Michael Caine

Michael Caine og Steve Martin í New York á mánudagskvöld.
Michael Caine og Steve Martin í New York á mánudagskvöld. AP

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og eiginkona hans, Dorrit Moussaieff, sátu í fyrrakvöld samkvæmi á vegum kvikmyndaklúbbsins í Lincoln Center í New York, samkvæmt frétt New York Times. Skrifstofa forseta Íslands staðfestir að Ólafur Ragnar og Dorrit hafi verið í samkvæminu og að forsetinn hafi haldið þar ræðu.

Margt þekkt fólk var í samkvæminu og þar á meðal var kvikmyndaleikarinn Steve Martin, sem líkt og Ólafur Ragnar flutti ræðu á samkomunni. „Ég veit hvers vegna ég er hér í kvöld, sagði leikarinn meðal annars í ræðu sinni. „Ég veit hvers vegna Philip Noyce er hér. Ég veit af hverju Ian Holm er hér. Ég veit hins vegar ekki af hverju forseti Íslands er hér,“ sagði Martin.

Í New York Times segir um Ólaf Ragnar að hann sé glaðlegur maður. Hann og Caine hafi kynnst fyrir nokkrum árum, um það leyti sem Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff kynntust, en Dorrit og Shakira, eiginkona Caine eru góðar vinkonur.

Þar segir jafnframt að í ræðu Ólafs Ragnars hafi íslenskt skopskyn fengið að njóta sín og hafi forsetinn farið með gamanmál um Miramax og Howard Dean.

Caine mun hafa verið ánægður með samkvæmið og sagði hann meðal annars í ræðu sinni: „Ég hef verið að æfa auðmýkt í allan dag. En það er mjög erfitt fyrir mann sem hefur verið leikari í 40 ár.“

Umfjöllun New York Times

Hjónin Michael og Shakira Caine, en Shakira og Dorrit, eiginkona …
Hjónin Michael og Shakira Caine, en Shakira og Dorrit, eiginkona Ólafs Ragnars, eru góðar vinkonur. AP
mbl.is