Segja álit umboðsmanns um skipun hæstaréttardómara í samræmi við kvörtun

Lögmenn, sem kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis yfir skipun í embætti hæstaréttardómara á síðasta ári, segja að álit umboðsmanns, sem birt var í dag, í samræmi við það sem þeir hafi vænt. Umboðsmaður telur m.a., að málsmeðferð dómsmálaráðherra við undirbúning að skipuninni hafi ekki verið í samræmi við lög um dómstóla og heldur ekki í samræmi við stjórnsýslulög.

Þrír lögmenn, sem einnig sóttu um embætti hæstaréttardómara en fengu ekki, kvörtuðu til umboðsmanns. Einn þeirra, Ragnar H. Hall, hæstaréttarlögmaður, segir álit umboðsmanns að meginstefnu vera í samræmi við þá kvörtun sem hann hafi sent umboðs manninum og með þeirri úrlausn sé málinu lokið af sinni hálfu.

„Tilefni þess að ég sendi kvörtun var það að ég taldi að sá rökstuðningur sem ráðherra bauð upp á eftir þessa embættisveitingu fengi með engu móti staðist. Ég vildi þess vegna fá úrlausn frá þeim aðila sem veitir stjórnsýslunni aðhald og hefur eftirlit með henni, sem sé umboðsmanni Alþingis. Ég lagði fyrir hann mína kvörtun og nú er ég búinn fá úrlausn um hana sem ég er ágætlega sáttur við.

Jakob R. Möller, lögmaður, segir að niðurstaða álitsins sé í samræmi við það sem hann hefði vonast eftir og staðfest hefði verið að dómsmálaráðherra hafi farið á svig við lög um hvernig eigi að haga vali á hæstaréttardómurum. Jakob sagði, að umboðsmaður tæki að vísu mjög heildstætt á málinu og fjallaði um miklu fleiri efni en verið hefði í kvörtuninni. „En mestu máli til framtíðar skiptir sú niðurstaða, að umboðsmaður bendir á að breyta þurfi reglum og í hvaða átt," sagði hann.

Hann sagði athyglisvert að umboðsmaður vísaði í áliti sínu í tilmæli Evrópuráðsins sem ætlað væri að mynda fjarlægð á milli veitingavaldsins og dómstóla vegna grundvallarreglunnar um sjálfstæði dómstólanna. Jakob sagði, að þessi tilmæli væru þó ekki skuldbindandi að þjóðarrétti en hins vegar virtist íslenska ríkisvaldið velja og hafna eftir hvaða tilmælum Evrópuráðsins þau færu. Þau færu eftir tilmælum um eignarhald á fjölmiðum, en færu ekki eftir tilmælum um fjármál stjórnmálaflokka og ekki eftir tilmælum um hvernig haga eigi skipun æðstu dómara landsins.

Þegar Jakob var spurður hvort hann hygðist leita réttar síns frekar eftir þessa niðurstöðu umboðsmanns sagði hann að ástæðan fyrir því að hann hefði kvartað væri sú að honum hafi ofboðið þessi embættisfærsla. „Þetta er staðfesting á því að sú afstaða var rétt og þá uni ég glaður við niðurstöðuna," sagði Jakob R. Möller.

Sá þriðji, sem kvartaði til umboðsmanns, var Eiríkur Tómasson, prófessor. Hann sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í dag, að álit umboðsmanns Alþingis væri mikill áfellisdómur yfir ráðherra og ljóst að endurskoða þurfi ákvarðanir um ráðningar dómara Hæstaréttar. Sagði Eiríkur að dómsmálaráðherra hafi ekki aðeins hafa brotið lög heldur allar venjur við skipun dómara í réttinn.

Álit umboðsmanns Alþingis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert