Björn: Fara þarf vandlega yfir sjónarmið umboðsmanns

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að í áliti umboðsmanns Alþingis komi fram ný sjónarmið sem séu þess eðlis að fara þurfi vandlega yfir þau og eins yfir álitið í heild. Álit umboðsmanns hnekki þó ekki þeirri ákvörðun hans að skipa Ólaf Börk í embætti hæstaréttadómara enda geri umboðsmaður ekki atugasemdir við ákvörðunina sjálfa heldur málsmeðferðina.

„Umboðsmaður Alþingis kemur með nýja túlkun á lögunum um dómstólana sem er þess eðlis að menn þurfa að skoða hvað það hefur í för með sér. Ég hafði ekki leitt hugann að þessari túlkun enda hefur hún ekki komið fram áður en þetta er sjónarmið sem sjálfsagt er fyrir okkur að líta til. Álit umboðsmanns kemur auðvitað eftir að ég er búinn að taka þá ákvörðun sem hann raunar finnur ekki að í álitinu, þ.e hann finnur ekki að því að ég hafi haft Evrópuréttinn sem meginástæðu mína fyrir skipaninni. Hann finnur heldur ekki að því að á þeirri forsendu hafi ég komist að þeirri niðurstöðu að Ólafur Börkur sé hæfastur. Umboðsmaður kemur aftur á móti með ábendingar varðandi túlkun á lögunum sem sjálfsagt og nauðsynlegt er að fara yfir,“ sagði Björn m.a. í samtali við Morgunblaðið.

Álit umboðsmanns leiðbeinandi
Dómsmálaráðherra segir um álit umboðsmanns að þau séu vísbendingar um það hvernig stjórnvöld eigi að taka á málum þegar álitin liggi fyrir og menn eigi þá að huga að viðhorfum hans þegar verið sé að taka ákvarðanir í framtíðinni, álitin geti eðli máls aldrei verið afturvirk. „Ég tek álit umboðsmanns Alþingis alltaf alvarlega og skoða þau vel. Þau eru til leiðbeiningar miðað við þá stöðu sem hann hefur sem álitsgjafi."

Aðspurður segir Björn að skilja megi álit umboðsmanns þannig að í því gefi hann vísbendingar um það að ákveði löggjafinn að endurskoða ákvæði um skipan dómara í Hæstarétt eigi að líta til þeirra sjónarmiða sem umboðsmaður nefnir. „Maður á aldrei að halda því fram í þessu tilliti, eins ég hef sjálfur sagt í ræðu, að endanlegt orð hafi verið sagt. Þetta eru mál sem þarf alltaf að skoða og velta fyrir sér. Nú liggja fyrir fræðilegar vangaveltur og ábendingar á grunni þeirra frá umboðsmanni sem mér finnst sjálfsagt að menn velti áfram fyrir sér og ræði," segir Björn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert