Umboðsmaður Alþingis um skipan í stöðu hæstaréttardómara: Annmarkar á málsmeðferð

Umboðsmaður Alþingis segir í nýju áliti sínu að vegna annmarka á málsmeðferð hafi af hálfu dómsmálaráðherra ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að skipan Ólafs Barkar Þorvaldssonar í stöðu hæstaréttardómara á síðasta ári.

Þrír af umsækjendum um stöðuna, lögmennirnir Eiríkur Tómasson, Ragnar H. Hall og Jakob R. Möller, kvörtuðu til umboðsmanns.

Í álitinu kemst umboðsmaður m.a. að þeirri niðurstöðu að málsmeðferðin hafi ekki fullnægt kröfum laga um dómstóla, þess efnis að umsögn Hæstaréttar lægi fyrir um þá lögfræðilegu þekkingu sem ráðherra hafði ákveðið að leggja sérstaka áherslu á við val milli umsækjenda, þ.e. þekkingu á Evrópurétti.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir við Morgunblaðið að í áliti umboðsmanns Alþingis komi fram ný sjónarmið sem séu þess eðlis að fara þurfi vandlega yfir þau. Álit umboðsmanns hnekki þó ekki þeirri ákvörðun sinni að skipa Ólaf Börk í embættið, enda geri umboðsmaður ekki athugasemdir við ákvörðunina og niðurstöðuna heldur málsmeðferðina.

Umboðsmaður vekur einnig athygli Alþingis og dómsmálaráðherra á því hvort þörf sé á því að fyrirkomulag við undirbúning og ákvarðanir um skipan hæstaréttardómara verði tekið til endurskoðunar og lagabreytingar gerðar af því tilefni ef sú verði niðurstaðan.

Björn Bjarnason segir að álit umboðsmanns séu vísbendingar um það hvernig stjórnvöld eigi að taka á málum. Hann taki álitin alltaf alvarlega og skoði þau vel. Þau séu til leiðbeiningar miðað við þá stöðu sem umboðsmaður hafi sem álitsgjafi.

Aðspurður segir dómsmálaráðherra í samtali við blaðið að skilja megi álitið þannig að í því gefi umboðsmaður vísbendingar um að ákveði löggjafinn að endurskoða ákvæði um skipan dómara í Hæstarétt eigi að líta til sjónarmiða umboðsmanns. "Þetta eru mál sem þarf alltaf að skoða og velta fyrir sér. Nú liggja fyrir fræðilegar vangaveltur og ábendingar á grunni þeirra frá umboðsmanni sem mér finnst sjálfsagt að menn velti áfram fyrir sér og ræði," segir Björn Bjarnason.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert