Hæstiréttur hafði þau áhrif sem lögin kveða á um

Jón Steinar Gunnlaugsson, prófessor og hæstaréttarlögmaður, segir að í áliti umboðsmanns sé lagt mikið upp úr því, að með lagabreytingu 1998 hafi verið aukin áhrif Hæstaréttar á val dómara við réttinn. Það hafi verið gert með því að útvíkka umsögn réttarins í að fjalla bæði um hæfi og hæfni umsækjenda og svo því að ekki megi veita umsækjanda embætti ef í umsögn réttarins kemur fram það álit að hann fullnægi ekki skilyrðum dómstólalaga um að vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar.

"Hér stendur svo á, að Hæstiréttur veitti umsögn samkvæmt lögunum og taldi alla umsækjendur uppfylla kröfur um hæfi og hæfni. Með þeim hætti hafði rétturinn öll þau auknu áhrif sem lögin kveða á um. Það er undarlegt, að umboðsmaður skuli nota þetta til að álykta sem svo að rétturinn eigi að hafa meiri áhrif á veitingu embætta við dóminn en felst í skýrum texta laganna," segir Jón Steinar.

Hann telur það málefnalegt sjónarmið í stjórnsýslu ráðherrans að leggja áherslu á menntun og þekkingu á Evrópurétti við val á milli umsækjenda. Á því sé enginn vafi.

Enga lagareglu að finna

"Það er sérkennilegt, að telja brotið gegn rannsóknarreglu með því að leita ekki frekari gagna um þekkingu annarra umsækjenda á Evrópurétti, fyrst ráðherra taldi þá þekkingu nýja dómarans ráða úrslitum við veitingu embættisins," segir Jón Steinar. "Virðist umboðsmaður meðal annars gefa í skyn, að ráðherra hefði borið að leita upplýsinga um þetta hjá umsækjendunum sjálfum. Þetta fær ekki staðist. Með umsókn sinni senda umsækjendur gögn og upplýsingar um námsferil, störf og fræðiiðkun eins og vera ber. Teljist ráðherra hafa verið skylt að gera þetta hefði honum allt eins orðið skylt að leita sérstakra upplýsinga um kunnáttu annarra umsækjenda í réttarfari, ef hann hefði ákveðið að velja annan þeirra umsækjenda, sem Hæstiréttur taldi heppilegastan. Niðurstaðan væri þá sú, að ráðherra hefði ekki án frekari rannsóknar mátt skipa annan þeirra umsækjenda sem rétturinn taldi að heppilegast væri að skipa. Hvorug þekkingin var nefnd í auglýsingu um embættið."

Jón Steinar segir hvergi að finna lagareglu sem styður það óvænta sjónarmið umboðsmanns, að afla hefði þurft sérstakrar umsagnar Hæstaréttar um þýðingu þekkingar á Evrópurétti, fyrst ráðherra vildi leggja upp úr henni. Enginn vafi sé á því, að ráðherra uppfyllti í málinu lagaskyldu sína um að leita álits Hæstaréttar, áður en hann veitti embættið.

Hann segir að vel megi taka undir sjónarmið hjá umboðsmanni um að æskilegt sé að huga að breytingum á reglum um skipun hæstaréttardómara. Ein af ástæðunum fyrir þörf á þessu sé sú, að það hljóti að teljast lítt viðunandi að sá sem fari með veitingavaldið þurfi eftir á að sæta álitsgerðum eins og þeirri sem nú leit dagsins ljós, þar sem meira virðist vera um nýsmíði lagareglna en beitingu þeirra sem í gildi séu. "Menn hafa allan rétt á að vera á annarri skoðun en ráðherrann um hvern helst hefði átt að skipa í umrætt embætti hæstaréttardómara. Það er hins vegar að mínu mati fjarri öllu lagi, að ráðherrann hafi ekki farið að lögum er hann skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »