Dögg Pálsdóttir: Krafa um sérþekkingu málefnaleg

Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður segir ábendingar sem fram koma í áliti umboðsmanns athyglisverðar og kalla á umræður. Ekki síst þegar horft sé til framtíðar og hvernig standa eigi að skipun í embætti dómara við Hæstarétt. Velt sé upp athyglisverðri spurningu um hvort fleiri greinar ríkisvaldsins þurfi að koma að slíkri skipan. "Mér sýnist að umboðsmaður telji að rökstuðningur um sérþekkingu í Evrópurétti sé málefnaleg ástæða fyrir skipun í embættið. Umboðsmaður bendir á að rannsóknarregla hefði átt að leiða til nánari skoðunar á Evrópuþekkingu annarra umsækjenda.

Umboðsmaður telur að eftir að ráðherra ákvað að þekking í Evrópurétti myndi vega þyngst við mat á umsækjendum hefði ráðherra borið að láta Hæstarétt gefa á ný umsögn um umsækjendur og kalla jafnvel eftir nánari gögnum frá þeim. Í álitinu virðist mér ekki dregin í efa hæfni þess sem skipaður var í Evrópurétti. Einungis er ábending um að ekki hafi verið könnuð hæfni annarra umsækjenda á þessu réttarsviði. Umboðsmaður virðist ekki gera athugasemdir við að sérþekking á tilteknu sviði innan lögfræðinnar hafi ráðið úrslitum í vali milli umsækjenda. Hann telur hins vegar að þegar svo háttar ætti að geta þess strax í auglýsingu." Bendir Dögg á að Hæstiréttur hafi í umsögn sinni talið tvo umsækjendur heppilegri vegna þarfa réttarins. Vegna þeirrar ábendingar að krafa um sérþekkingu ætti að koma strax fram í auglýsingu, vakni sú spurning hvort jafnvel eigi í hvert sinn áður en embætti Hæstaréttardómara sé auglýst að meta hver sé talin þörf réttarins hverju sinni og geta þess í auglýsingunni. "Við hljótum að ætla að mat Hæstaréttar á því hvaða sérþekkingar sé helst þörf í réttinn byggist á mati á stöðunni áður en embætti er auglýst laust til umsóknar en ekki á slíku mati eftir að fyrir liggur hverjir hafa sótt um embættið."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert