Ragnhildur Helgadóttir: Rannsóknarreglu ekki fullnægt

Ragnhildur Helgadóttir, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir það vera grundvallarreglu að velja beri hæfasta umsækjandann í starf. Umboðsmaður gangi út frá því að það geti verið málefnalegt sjónarmið að líta til sérþekkingar á einstöku sviði við skipan í embætti hæstaréttardómara. Það fari samt eftir aðstæðum og verði að leggja góðan grunn að ákvörðun um að byggja á slíku sjónarmiði.

"Hann gefur í skyn að það hefði átt að leita umsagnar Hæstaréttar um það hvort það vantaði í réttinn sérþekkingu á sviði Evrópuréttar," segir hún og vitnar í álit umboðsmanns þar sem fram komi að ráðherra hafi lagt mat á þörfina fyrir það, án fyrirliggjandi umsagnar Hæstaréttar, að í réttinn yrði skipaður maður með sérþekkingu á þessu tiltekna réttarsviði. Auk þess sem ráðherra hafi einhliða lagt mat á þekkingu umsækjenda á Evrópurétti. Þannig hafi bæði átt að rannsaka betur hvort það vantaði sérþekkingu á þessu sviði og þekkingu annarra umsækjenda á því. Rannsóknarreglan hafi í raun verið enn almennari því einnig sé fundið að því að umsækjendur hafi ekki verið bornir saman á öðrum sviðum.

Bendir hún á að umboðsmaður nefni að við stöðuveitingu megi ekki horfa svo mikið á eitt sjónarmið að samanburður fari ekki fram milli umsækjenda, til þess að sjá hver sé hæfastur. En þar sem umsögn Hæstaréttar vantaði, um hversu brýnt það var að fá starfsmann með þekkingu á Evrópurétti, sé ómögulegt að segja hversu mikið vægi þetta sjónarmið hafi átt að hafa við val á milli umsækjanda.

Hún segir umboðsmann telja að Hæstiréttur hafi, skv. dómstólalögunum, átt að fá tækifæri til að meta hæfi og hæfni umsækjenda út frá þessu sjónarmiði, að það vantaði í réttinn þekkingu á Evrópurétti, eins og dómsmálaráðherra hafi metið það. "Hann segir að það sé ekki nóg að fá almennt mat hjá Hæstarétti á hæfi og hæfni umsækjenda ef það eigi svo að byggja ákvörðunina á þekkingu á tilteknu réttarsviði. Þetta kemur tiltölulega skýrt fram í niðurstöðu umboðsmanns." Spurð segir hún túlkun umboðsmanns á lögunum vel rökstudda. Álitið velti ekki bara á túlkun á dómstólalögum heldur byggist líka á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »