Ný ryðfrí fiskflökunarvél frá Vélfagi á Ólafsfirði

Vélfag ehf. á Ólafsfirði hefur lokið fyrstu prófunum á fiskflökunarvél, sem fyrirtækið hefur verið með í smíðum um nokkurt skeið, að því er kemur fram á vef Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Prófanir fóru fram á Ólafsfirði og var þorskur af mismunandi stærð notaður og segir að ekki eitt einasta flak hafi farið til spillis. Í þessari nýju vél hafi ýmsir vankantar annarra flökunarvéla verið sniðnir af.

Í fréttinni segir að hin nýja vél sé að mörgu leyti byggð á lausnum, sem notaðar hafi verið í fiskvinnslu hér á landi mjög lengi. Helsti munurinn felist m.a. í efnisvalinu þar sem nýja vélin sé eingöngu smíðuð úr tæringarfríum efnum, sérblönduðu og styrktu plasti og ryðfríu stáli.

Næsta skref hjá Vélfag mun vera að setja tölvustýringu í flökunarvélina en þannig sé mögulegt að hámarka flakanýtingu á hverjum einasta fiski. Þá segir að vonir séu bundnar við að flakanýting í fiskvinnslu aukist um nokkur prósent fyrir utan minni viðhaldskostnað og aukið hreinlæti.

mbl.is