Steingrímur segir forsætisráðherra vera „gungu og druslu“

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra vera gungu og druslu þegar hann tjáði sig úr ræðistól á Alþingi í morgun í umræðum um fjölmiðlafrumvarpið. Steingrími gramdist að forsætisráðherra skyldi ekki vera viðstaddur umræðuna.

Þá sagðist hann hafa séð Davíð „bráðfrískan á vappi í kringum salinn áðan“. Steingrímur bætti við: „Hann getur ekki haft nein lögmæt forföll. Ég hlýt að líta svo á að hann þori ekki ... hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig ... ég hlýt að líta svo á ... og það skal þá standa að Davíð Oddsson sé slík gunga og drusla að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig.“

Í frétt RÚV kemur fram að þingmaðurinn hafi óskað viðveru forsætisráðherra meðan hann flutti ræðu sína um fjölmiðlafrumvarpið því hann hygðist leggja fyrir hann spurningar er vörðuðu frumvarpið og hvort það stæðist stjórnarskrá. Þegar ljóst varð að forsætisráðherra yrði ekki við þessari beiðni lét Steingrímur ummælin falla.

mbl.is