Umboðsmaður kvartaði ekki yfir samskiptum við forsætisráðherra

Umboðsmaður Alþingis hefur hvorki kvartað né gert athugasemdir við óeðlileg samskipti forsætisráðherra við sig vegna álitsgerðar hans um hæstaréttardómaraskipan. Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingar, spurði um þetta á fundi forsætisnefndar í dag og var svarað af Halldóri Blöndal, forseta Alþingis, að svo hefði ekki verið.

„Minn tilgangur var sá að ganga úr skugga um það að umboðsmaður ætti skjól í Alþingi ef einhver óeðlileg samskipti hefðu átt sér stað,“ segir Guðmundur Árni og bætir við að hann muni ekki aðhafast frekar í málinu. „Þetta er tveggja manna tal og ef umboðsmaður Alþingis, sem heyrir undir þingið, hefur ekki gert athugasemdir þá sé ég ekki frekari efni í málinu,“ segir Guðmundur Árni.

Guðmundur Árni segist hafa borið fram einfalda spurningu og fengið skýrt svar og ekki hafi átt sér stað sérstök umræða um málið.

mbl.is