Malbikið bráðnaði í veðurblíðunni á Egilsstöðum

Bráðið malbikið glitrar í síðdegissólinni á Egilsstöðum. Hitamælir á lögreglustöðinni …
Bráðið malbikið glitrar í síðdegissólinni á Egilsstöðum. Hitamælir á lögreglustöðinni í bænum sýndi t.d. 20 gráður í forsælu í dag. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Mjög gott veður hefur verið á Egilsstöðum í dag og til marks um það var enn 19 stiga hiti í bænum kl. 18. Er þetta langheitasti dagur ársins, enn sem komið er a.m.k. Svo heitur raunar, að malbik, eða öllu heldur klæðning, sem lögð var á vegarkafla á Kaupvangi á Egilsstöðum, ásamt tengingu við þjóðveg eitt, er tekin að bráðna. Klæðningin glitrar í aftansólinni og tjaran skvettist upp á bíla sem fara um veginn.

Ástæða þessa mun vera sú að klæðningin var lögð í köldu veðri sl. haust og er nú að „sjóða niður“. Segja fróðir malbiksmenn að þetta þorni smám saman þegar hiti jafnast.

Hvað sem þessu líður tóku Egilsstaðabúar daginn með trompi og viðruðu sig hver sem betur gat í góða veðrinu. Auðvitað varð örtröð á öllum íssölustöðum og segja má að nú séu Héraðsmenn orðnir ákveðnir í að ekki snjói meira og óhætt sé að komast í sumarskap.

mbl.is