Persónuvernd hafa borist kvartanir vegna undirskriftasöfnunar

Leitað hefur verið til Persónuverndar símleiðis og kvartað yfir því að nöfn og kennitölur hafi verið skráðar á undirskriftalistann askorun.is án þess að viðkomandi einstaklingar hafi óskað eftir því að vera bætt á listann. Þá hafa Morgunblaðinu borist athugasemdir frá einstaklingum sem vildu skrá upplýsingar um sig á vefsíðuna en komust að því að nafn þeirra og kennitala hefði þegar verið skráð.

Nöfn tæplega 2.000 manns undir 18 ára felld burt af listanum

Róbert Marshall, formaður Fjölmiðlasambandsins, segir að þetta sé öruggasta undirskriftasöfnun sem fram hafi farið á Íslandi og að nöfn tæplega tvö þúsund manns undir 18 ára aldri hafi verið felld burt af listanum.

Að sögn forstjóra Persónuverndar, Sigrúnar Jóhannesdóttur, hafa þó ekki borist formlegar kvartanir vegna þessa. Hún segir að berist slík kvörtun beri Persónuvernd að sinna henni og taka málið til rannsóknar. "Ég reikna ekki með að við myndum að óbreyttu hafa frumkvæði að því að skoða listann. En ef einhver telur að hann sé ranglega færður á listann þá á hann rétt á liðsinni okkar til að ganga um skugga um það."

Fjölmiðlasambandið stendur að vefsíðunni www.askorun.is. Á vefsíðunni er skorað á forseta Íslands að undirrita ekki lög um eignarhald á fjölmiðlum sem Alþingi hefur samþykkt. Einstaklingar geta skráð sig inn með því að skrifa nafn og kennitölu í þar til gerða reiti. Listi yfir þá sem hafa skráð sig er ekki birtur á vefsíðunni en Fjölmiðlasambandið afhenti forseta Íslands í fyrradag lista með undirskriftum 31.752 Íslendinga. Stjórn Fjölmiðlasambandsins fundaði í gærkvöldi þar sem söfnunin var rædd. Í tilkynningu sambandsins segir að það telji að markmið söfnunarinnar hafi náðst en eftir að það hafi skilað listanum með tæplega 32 þúsund nöfnum til forseta Íslands hafi áhugasamir tekið sig til og haldið áfram að safna undirskriftum í nafni Fjölmiðlasambandsins án samráðs við það. Hafi þessum hópi tekist að safna fimm þúsund undirskriftum með úthringingum og undirskriftalistum.

Að sögn Róberts Marshall, formanns Fjölmiðlasambandsins, hafa fleiri undirskriftir bæst við frá því í fyrradag og nú hafi nálægt 35 þúsund manns skráð nafn sitt á listann á askorun.is. Hann segir þá leið sem farin er við undirskriftasöfnunina, þ.e. að gera fólki kleift að skrá nafn og kennitölu á Netinu, vera örugga.

Örugg undirskriftasöfnun

"Ég fullyrði að þetta sé öruggasta undirskriftasöfnun sem fram hefur farið á Íslandi. Við höfum getað sannreynt það á þessum lista að kennitala og nafn passi saman, að það sé raunveruleg persóna á bak við kennitöluna. Við höfum líka getað sannreynt það að sama manneskjan komi ekki tvisvar sinnum fyrir," segir Róbert.

Spurður að því hvort hægt sé að tryggja að ekki séu skráð nöfn og kennitölur einstaklinga sem ekki hafa óskað eftir að vera á listanum segir hann að gert sé ráð fyrir að fólk sem skráir sig sé heiðarlegt. "Þá yrðum við að gera ráð fyrir því að einhverjir einstaklingar hefðu setið tímunum saman og pikkað inn nöfn og kennitölur. Menn geta auðvitað gagnrýnt þessa undirskriftarsöfnun eins og þeir vilja. En ég stend við hana, ég held að hún sé algjörlega örugg og sú öruggasta sem framkvæmd hefur verið. Við gerum ráð fyrir því að forseti Íslands og almenningur allur telji Fjölmiðlasambandið ekki bófaflokk sem myndi falsa slíka söfnun."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert