Einhleypir karlar eru með mestu vanskilin

Í ársskýrslu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna fyrir árið 2003 kemur m.a. fram að fjölmennasti einstaki hópur viðskiptavina séu einstæðar mæður en næstum þriðji hver umsækjandi tilheyrir þeim hópi. Einhleypum körlum og konum fjölgaði milli ára og eru einhleypir karlar með mestu vanskilin. Erfið skuldastaða þeirra og vanskil sérstaklega hvað varðar skatta- og meðlagsskuldir hafa verið einkennandi síðustu ár. Hjón með börn eru hins vegar með hæstu heildarskuldirnar.

Í ársskýrslunni kemur einnig fram að atvinnuleysi, tekjuminnkun og veikindi eru langalgengustu ástæður greiðsluvanda þeirra sem leita til Ráðgjafarstofunnar. Kemur fram að í rúmlega 20% tilfella er viðskiptavinum vísað á aðstoð félagsþjónustu sveitarfélaga.

Ársfundur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna var haldinn í síðustu viku og voru þangað boðaðir fulltrúar þeirra 13 aðila sem koma að rekstri stofunnar auk fulltrúa sveitarfélaga og styrktaraðila.

Ársskýrsla Ráðgjafarstofu fyrir árið 2003

mbl.is