Þjóðdansafélagið: Engar reglur til um að ekki skuli lánaðir búningar fólki af öðrum litarhætti

Þjóðdansafélag Reykjavíkur hefur farið þess á leit við Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is) að hann birti eftirfarandi yfirlýsingu frá félaginu vegna fréttaflutnings af myndatöku af þeldökkri konu í íslenskum hátíðarbúningi til birtingar í blaðinu „Reykjavík Grapevine“.

Yfirlýsing Þjóðdansafélagsins er svohljóðandi:

„Þjóðdansafélag Reykjavíkur hefur dregist inn í ótrúlegar vangaveltur vegna myndatöku af þeldökkri konu í íslenskum hátíðarbúningi til birtingar í blaðinu “Reykjavík Grapevine”.

Þó ekki komi fram í blaðinu ásakanir í garð ÞR hafa aðrir fjölmiðlar lagst á eitt að slá málinu upp sem kynþáttafordómum.

Stjórn ÞR harmar þá túlkun sem fram hefur komið, að það sé stefna félagsins að ekki skuli lána fólki af öðrum litarhætti búninga úr búningaleigu félagsins. Engar slíkar reglur eru til í lögum félagsins eða reglum búningaleigu. Félagið hefur margoft lánað búninga til fólks af öðrum litarhætti. Nýlegt dæmi um það eru tvær ungar konur í Félagi nýrra Íslendinga sem eru að fara á ráðstefnu erlendis og munu klæðast búningum frá ÞR.

Fullyrðingar um kynþáttafordóma félagsins eða félagsmanna ÞR eru rakalausar.

Af virðingu fyrir hátíðabúningum okkar hefur búningaleigan í nokkrum tilvikum ákveðið að lána ekki búninga ef vafi hefur leikið á að sýna ætti þeim fulla virðingu. Þessi stefna hefur í nokkrum tilvikum orkað tvímælis og hefur stjórn félagsins þá oft kannað mál nánar og fullvissað sig um að tilgangur leigutaka með leigu væri þess eðlis að um ásættanlega meðferð á búningi væri að ræða. Þessi venja hefur ekkert með litarhátt, uppruna eða kyn fólks að gera.

Þegar starfsmenn RGV lýstu hugmyndum sínum um notkun búningsins fyrir umsjónarkonu búningaleigu lét hún í ljós að henni þætti hugsanlegt að vegið væri að heiðri búningsins og notkunin væri vart viðeigandi. Þar sem starfsmenn RGV voru ekki tilbúnir að leigja búning en vildu fá hann lánaðan gegn hugsanlegri umfjöllun um ÞR í blaði þeirra vísaði búningaleigan á formann félagsins sem taldi möguleika á slíkum samningi. Samskiptum við starfsmenn RGV lauk með þeim hætti að þeir ætluðu að hafa samband aftur til þess að finna endanlegan flöt á málinu. Ekki heyrðist aftur í þeim og stjórn félagsins hafði engar fréttir af þessu máli fyrr en fjölmiðlar fóru að bera kynþáttahatur upp á félagið.

ÞR hefur lagt sig fram við að stuðla að fjölmenningarlegri starfsemi á Íslandi og oft hafa einstaklingar ættaðir frá fjarlægustu kimum heimsins átt skjól hjá ÞR á meðan þeir hafa dvalið hér á landi. Þessir einstaklingar frá Afríku, Mið-Asíu, Austur-Asíu, Filipseyjum, Ástralíu, Hawai, Japan o.s.frv. hafa dansað með okkur íslenska dansa og kennt okkur dansa frá sínum löndum. Þjóðdansafélagið átti einnig um árabil mikil samskipti við “kántrídansklúbba” á Keflavíkurflugvelli. Ef allir Íslendingar hefðu tekið fólki af erlendu bergi brotnu með jafn jákvæðum hætti og félagar í Þjóðdansafélagi Reykjavíkur hafa gert undanfarin 53 ár væri okkar samfélag ef til vill ekki jafn tilbúið að kalla náungann kynþáttahatara við minnsta tilefni.

Það er athyglivert að fylgjast með því hvernig fjölmiðlar velta sér nú upp úr minnsta grun um kynþáttafordóma hjá litlu félagi eins og ÞR. Árið 2001 hélt ÞR þjóðdansamót með 1.300 börnum og 800 foreldrum þeirra eða alls 2.100 erlendum þátttakendum. Sennilega mun þetta með stærstu mótum ef ekki stærsta mót með erlendum þátttakendum sem haldið hefur verið hér á landi. Tekjur landsins af þessu framtaki félagsins voru verulegar, og hafa menn verið verðlaunaðir fyrir minni útflutningstekjur en þarna runnu inn í landið. Áhugi fjölmiðla á þessu mikla framtaki okkar var nánast enginn.

Á næstu vikum stendur fyrir dyrum að halda hér í Reykjavík 350 manna þjóðdansamót og vissulega höfum við áhyggjur af því að sú umræða sem hefur átt sér stað undanfarna daga varpi skugga á móttöku þeirra gesta sem við eigum von á.

Við sem höfum af veikum mætti í sjálfboðavinnu reynt að stuðla að varðveislu og endurvakningu þjóðlegra búninga og dansa við gömul kvæði og lög og höfum lengst af mátt sitja undir því að vera bæði púkó og hallærisleg, biðjumst undan fullyrðingum fjölmiðla og annarra pennaglaðra landsmanna um meint kynþáttahatur félagsins og félagsmanna. Við teljum þvert á móti að við höfum stuðlað að fjölmenningarlegum tengslum með samvinnu við ýmis samtök nýrra Íslendinga.

Við teljum að málatilbúningur RGV dæmi sig sjálfur og sú freisting að nota óafgreidd samskipti við búningaleigu þjóðdansafélagsins til þess að stimpla hóp áhugamanna sem unnið hafa að fjölþjóðlegri menningu á Íslandi sem kynþáttahatara sé sorglegt dæmi um misbeitingu valds fjölmiðla yfir örlögum einstaklinga sem hika þegar viðfangsefnið er ekki alveg skýrt.

Af þeim bréfum sem félaginu hafa borist síðustu daga má ráða að vægðarlaus fréttaflutningur mun hafa veruleg áhrif á framtíð okkar fámenna félags og möguleika okkar á að veita þá þjónustu sem við höfum staðið fyrir á undanförnum árum. Búningaleiga okkar hefur verið ómetanleg stoð fyrir aðila sem standa í landkynningu jafnt einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök og kóra.

Það er von okkar að þjóðin geti í sameiningu og án fordóma tekist á við þær viðkvæmu spurningar sem hvarvetna blasa við í vaxandi fjölþjóðlegu samfélagi á Íslandi.

Stjórn Þjóðdansafélags Reykjavíkur

P.S.
Staðreynd er að búningurinn sem stúlkan á forsíðu RGV er í heitir kyrtill, en ekki skautbúningur. Þjóðbúningar eru menningarlegur arfur og væri full ástæða til að fá nánari umfjöllun um þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert