Kjósendum hefur fjölgað um 9,7% frá síðasta forsetakjöri

Kjósendur vegna forsetakjörsins næstkomandi laugardag eru samtals 213.553, þar af 107.119 konur og 106.434 karlar. Við forsetakjör 29. júní 1996 voru 194.705 kjósendur á kjörskrá og nemur fjölgunin 18.848 eða 9,7%.

Við forsetakjör 29. júní 1996 voru 194.705 kjósendur á kjörskrá og nemur fjölgunin 18.848 eða 9,7%.

Kjósendur með lögheimili erlendis eru 8.860 eða 4,1% kjósenda og hefur þeim fjölgað um 1.094 frá síðasta forsetakjöri eða um 14,1%. Kjósendum með lögheimili hér á landi hefur fjölgað um 17.754 eða 9,5%. Þeir sem vegna aldurs fá nú að kjósa í fyrsta sinn við forsetakjör eru 34.549 eða 16,2% kjósenda.

Sveitarstjórnir semja kjörskrár eftir kjörskrárstofnum sem Hagstofan lætur þeim í té. Í endanlegri tölu kjósenda á kjörskrá, sem birt verður í skýrslu um kosningarnar, verður tekið tillit til tölu látinna og þeirra sem fá nýtt ríkisfang eftir að kjörskrárstofnar voru unnir, svo og breytinga sem verða á kjörskrá vegna leiðréttinga.

mbl.is