Fyrsta skóflustungan tekin að Molanum

Smári Geirsson tók fyrstu skóflustunguna að Molanum.
Smári Geirsson tók fyrstu skóflustunguna að Molanum.

Fyrsta skóflustungan hefur verið tekin að verslunarmiðstöð í Fjarðarbyggð. Smári Geirsson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, tók skóflustunguna í gær. Byggingin verður 2.500 fermetrar að stærð og hefur hlotið nafnið Molinn.

Molinn mun rísa í miðbæ Reyðarfjarðar, milli Búðareyrar og Strandgötu. Framkvæmdir munu fara í fullan gang þegar í stað enda gera áætlanir ráð fyrir að verslunarmiðstöðin verði tekin í notkun í desember, að því er kemur fram í fréttatilkynningu Íslenskra aðalverktaka en fyrirtækið sér um byggingaframkvæmdirnar.

Þá kemur fram að þegar liggi fyrir að lágvöruverslunin Krónan verði í verslunarmiðstöðinni. Þá hyggjast forráðamenn Landsbanki Íslands flytja útibú sitt á Reyðarfirði í Molann sem og Verkfræðistofan Hönnun. Þá verða bæjarskrifstofur Fjarðabyggðar í húsinu ásamt fjölmörgum öðrum aðilum sem viðræður standa nú yfir við, segir í tilkynningunni. Meðal annars er gert ráð fyrir að þar verði sportvöruverslun, lyfjaverslun sem og fleiri sérverslanir. Smáragarður ehf. verður eigandi verslunarmiðstöðvarinnar.

mbl.is