Hafnarfjörður: „Samfylkingin búin að missa tök á fjármálum bæjarsjóðs“

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði lýsa yfir þungum áhyggjum af ónákvæmni í allri fjárhagsáætlanagerð sveitarfélagsins, samkvæmt bókun sem þeir gerðu við umræður um rammafjárhagsáætlun í bæjarstjórninni í gær.

„Fyrir um ári síðan var lagður fram fjárhags- og framkvæmdarammi fyrir árin 2004, 2005 og 2006. Þar voru meginmarkmið Samfylkingarinnar sett fram fyrir ofangreind ár. Nú ári síðar er enn lögð fram rammaáætlun fyrir sömu ár að meðtaldri áætlun fyrir árið 2007. Þegar niðurstöður rammaáætlana þessara ára eru bornar saman er um viðamikil frávik að ræða.

Sú augljósa staðreynd sem birtist í niðurstöðum eru skýr vísbending um að Samfylkingin er algjörlega búin að missa tök á fjármálum bæjarsjóðs. Allt tal um ráðdeild, sparnað og hagkvæmni í rekstri sést hvergi endurspeglast í niðurstöðum framangreindra áætlana. Þar má m.a. til taka að veltufé frá rekstri A-hluta bæjarsjóðs fyrir árin 2004-2006 hefur minnkað um samtals kr. 1.357 milljónir frá því sem áætlað var fyrir ári síðan.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja því hjá við afgreiðslu framlagðrar rammafjárhagsáætlunar og vísa jafnframt til bókana sinna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2004 sem og bókana sinna við afgreiðslu ársreiknings fyrir árið 2003,“ segir í bókun sjálfstæðismanna í bæjarstjórninni í gær.

Í bókun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar af þessu tilefni segir, að í rammaáætlun sé fylgt eftir þeirri stefnumörkun að treysta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, bæta stjórnskipulag og ná fram aukinni hagræðingu í rekstri. Stjórnsýslubreytingar sem tóku gildi á sl. hausti hafi gengið fram samkvæmt áætlun og muni auka hagræði og um leið efla og bæta þjónustu af hálfu sveitarfélagsins eins og þegar hafi sýnt sig.

Jafnframt hafi margvíslegar aðgerðir til hagræðingar í rekstri náð fram að ganga og verði fylgt enn frekar eftir með markvissu kostnaðar- og rekstrareftirliti. Með þeim tillögum og áherslum sem boðaðar væru í rammafjárhagsáætluninni væri lögð fram skýr stefna varðandi þau fjárhagslegu og rekstrarlegu markmið sem Hafnarfjarðarbær setti sér á komandi árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert