Geir H. Haarde: Breytingar á fjölmiðlalögum kippa botninum undan málflutningi forsetans

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, sagði á fundi sem Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hélt í dag um nýja stöðu fjölmiðlalaga, að hann teldi að með þeim breytingum sem ætlunin sé að gera á lögunum, einkum með því að skjóta gildistöku aftur fyrir næstu þingkosningar, hafi botninum verið kippt undan málflutningi forseta Íslands, þegar hann ákvað að undirrita ekki lögin frá því í maí.

„Finni hann sér hins vegar aðrar ástæður til að undirrita ekki ný lög, er að mínum dómi ljóst, að fyrir honum vakir annað en það sem hann hélt fram í upphafi og hann er þá að ganga annnarra erinda, og jafnframt kominn enn dýpra á kaf í stjórnmáladeildur samtímans. Slíkt er að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál og afar óheppleg þróun ef sú verður raunin," sagði Geir.

Hann velti því einnig fyrir sér hvað myndi gerðast, ef forsetinn synjaði nýjum lögum staðfestingar. Þau lög tækju eigi að síður gildi, en gömlu lögin féllu úr gildi, samkvæmt ákvæðum nýju laganna en um leið myndu allar spurningarnar um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu vakna að nýju og málið yrði að því leyti komið í fullkominn hring. „Ég trúi því ekki að forsetinn vilji taka á sig ábyrgðina á því," sagði Geir.

Hann sagði að ríkisstjórnin hefði með ábyrgum hætti fundið leið til að afstýra þjóðaratkvæðagreiðslu sem óhjákvæmilega hefði farið fram í skugga mikillar réttaróvissu, um form hennar og fyrirkomulag, og hún hefði jafnframt fundið leið, til að koma til móts við gagnrýnendur fjölmiðlalaganna, án þess að falla frá meginstefnu sinni, í málinu. Hún hefði boðið stjórnarandstöðunni aðild að áframhaldandi vinnu fjölmiðlanefndainnar og því sýnt bæði sáttfýsi og sveigjanleika í málinu. Sagði Geir að óskandi væri að allir aðrir aðilar geri slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert