Fyrsta skóflustungan tekin að álveri Fjarðaáls

Fyrsta skóflustungan tekin að álveri Fjarðaáls.
Fyrsta skóflustungan tekin að álveri Fjarðaáls. mbl.is/Steinunn

Fyrsta skóflustungan var tekin að álveri Fjarðaáls á lóð Hrauns í Reyðarfirði um klukkan 12:30 í dag. Fyrsti áfangi jarðvegsvinnu hefst um miðjan mánuðinn og verður jarðvegurinn notaður sem uppfyllingarefni í nýja höfn sem verður tilbúin til notkunar sumarið 2005. Jarðvegsvinnu verður síðan að fullu lokið á næsta ári og í apríl 2005 verður byrjað að steypa kerskála álversins. Í janúar 2007 verður höfnin tilbúin til löndunar á þeim hráefnum sem þarf til framleiðslu á áli og í apríl sama ár verður álverið tilbúið að hefja starfsemi. Reiknað er með að byggingarkostnaður álversins verði um 84 milljarðar króna og mun sá kostnaður dreifast á fjögur ár. Fjarðaál mun fá raforku frá Kárahnjúkavirkjun.

Athöfnin hófst með ávarpi Tómasar Más Sigurðssonar, forstjóra Fjarðaáls, og einnig fluttu Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, Bent Reitan, forstjóri frumvinnslu Alcoa og Andy Graig, yfirmaður námu- og málmasviðs Bechtels, aðalverktaka álversbyggingarinnar. Eftir að Davíð Baldursson, sóknarprestur, hafði farið með bæn tóku þau Guðmundur, Valgerður, Reitan og Graig fyrstu skóflustungurnar og notuðu til þess fjórar íslenskar álskóflur. Nú fara boðsgestir til athafnar í Félagslundi í Reyðarfirði.

Guðmundur Bjarnason sagði m.a. í sínu ávarpi, að um væri að ræða stóran dag í lífi Austfirðinga. Hann rakti þau umsvif sem muni fylgja framkvæmdunum og benti á að vegna þeirra sköpuðust miklar tekjur fyrir ríkið, m.a. 4 milljarðar króna vegna tekjuskatta. Hvatti Guðmundur stjórnvöld til að mæta þessu með því að leggja aukið fjármagn til uppbyggingar og til að bæta aðbúnað á svæðinu.

Meðal þeirra sem viðstaddir voru athöfnina voru þingmenn kjördæmisins, ráðherrar og fulltrúar verktakafyrirtækja, banka og sveitarfélaga og forsvarsmenn fyrirtækja og verkalýðshreyfingar á Austurlandi. Athöfnin fór fram á álverslóðinni og var mjög ströng öryggisgæsla lögreglu á svæðinu. Við afleggjarann stóðu nokkrir mótmælendur á vegum Náttúruvaktarinnar með mótmælaspjöld gegn álversframkvæmdunum.

Fjöldi manns var viðstaddur þegar fyrsta skóflustungan var tekin að …
Fjöldi manns var viðstaddur þegar fyrsta skóflustungan var tekin að álverinu. mbl.is/Helgi Garðarsson
Lögregla fylgist með fulltrúum Náttúruvaktarinnar sem mótmæltu álverinu.
Lögregla fylgist með fulltrúum Náttúruvaktarinnar sem mótmæltu álverinu. mbl.is/Steinunn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert