Spiluðu sama lagið í sex klukkutíma

Spilasveitin Runólfur setti óstaðfest heimsmet á laugardaginn með því að …
Spilasveitin Runólfur setti óstaðfest heimsmet á laugardaginn með því að spila sama lagið í sex tíma á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Morgunblaðið/ÞÖK

Liðsmenn í Spilabandinu Runólfi settu að eigin sögn heimsmet á laugardaginn þegar þeir spiluðu sama lagið, Chameleon eftir Herbie Hancock, stanslaust í sex klukkustundir á Víðistaðatúni í Hafnarfirði.

Ragnar Ragnarsson, orgelleikari Spilabandsins, segir að spilamennskan hafi verið í tilefni af ársafmæli hljómsveitarinnar og að það hafi tekið á, andlega jafnt sem líkamlega, að spila svona lengi.

"Við stigum mikinn sigurdans eftir að við náðum takmarkinu en ég held að við höfum fengið alveg nóg af þessu lagi í bili og reiknum ekki með að spila það aftur á næstunni," segir Ragnar. Ýmsir tónlistarmenn lögðu þeim lið á laugardaginn og spiluðu með, þ.ám. liðsmenn Jagúar.

Liðsmenn Runólfs, sem er fönksveit úr Hafnarfirði, eru átta talsins á aldrinum 16 til 19 ára og eru allir í tónlistarnámi, að sögn Ragnars.

Með spilamennskunni á laugardag var Runólfur að reyna við heimsmet í að spila sama lagið samfellt í lengstan tíma.

Ragnar segir að þeir hafi reyndar ekki ennþá fengið staðfestingu frá Heimsmetabók Guinness á því að heimsmetið hafi verið slegið.

"Það hafa eflaust einhverjar hljómsveitir leikið mismunandi lög samfellt lengur en í sex tíma. Við höfum hins vegar ekki fundið neitt um að sama lagið hafi verið leikið lengur en í sex tíma og það er alveg á hreinu að enginn hefur spilað þetta lag svona lengi í einu," segir Ragnar.

Hann segir að þeir hafi sent tölvupóst til heimsmetabókarinnar en fengið það svar að daglega bærust 60 þúsund tölvuskeyti og ekki væri unnt að svara beiðni þeirra fyrr en eftir þrjá til fimm mánuði.

"Við verðum bara að sjá til hvað þeir segja," segir Ragnar og tekur fram að það sé ekki útilokað að hljómsveitin reyni við fleiri heimsmet á næstunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »