Fjölmiðlamálið rætt í ríkisstjórn á morgun

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, áttu stuttan fund um stöðu fjölmiðlamálsins skömmu eftir klukkan 14 í dag í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu. Halldór sagði eftir fundinn að þeir Davíð muni ræða við sitt fólk í allsherjarnefnd Alþingis og verið væri að vinna að endanlegri lausn á þessu máli. Davíð sagði að þeir Halldór væru alveg samstíga í málinu. Sagði hann að ríkisstjórnarfundur verði haldinn á morgun og hann vænti þess að málið verði afgreitt úr allsherjarnefnd síðar um daginn.

Allsherjarnefnd hefur verið boðuð til fundar klukkan 17 í dag en Davíð sagði að það hefði verið gert samkvæmt ósk stjórnarandstöðunnar. Davíð sagðist í dag hafa greint Bjarna Benediktssyni, formanni allsherjanefndar, frá viðræðum þeirra Halldórs í dag og í nefndinni verði farið yfir þau sjónarmið, sem þeir Halldór hafi fram að færa. Þegar Davíð var spurður hvort til greina kæmi að draga frumvarpið til baka sagðist hann ekki ætla að segja meira um þetta mál að svo stöddu en hann hefði þegar sagt; það kláraðist væntanlega á morgun.

Þegar Davíð var spurður hvort framsóknarmenn hefðu stillt sjálfstæðismönnum upp við vegg svaraði hann enginn hefði stillt neinum upp við vegg og þannig væri ekki unnið í samstarfi þessara flokka. „Það eru vinstristjórnir sem gera það og þess vegna springa þær alltaf."

Halldór sagði aðspurður við fréttamenn, að framsóknarmenn hefðu ekki sett fram neina úrslitakosti en vildi ekkert gefa út á hvort það væri vilji Framsóknarflokksins, að fjölmiðlalögin sem sett voru í vor yrðu afnumin og fjölmiðlafrumvarpið að öðru leyti dregið til baka. Þá sagði Halldór aðspurður, að stjórnarsamstarfið þyldi miklu meira en þetta mál.

Davíð sagðist hafa heyrt haft eftir Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, að þeir Halldór hefðu tekið forræðið af allsherjarnefnd. „Mér finnst þetta dálítið merkilegt því formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa rutt sínum mönnum öllum út úr nefndinni og hafi einhverjir tekið forræðið af sínum mönnum í nefndinni þá eru það þessir formenn," sagði Davíð. Sagði hann að í þingsköpum segði að hægt sé að setja nýja menn í nefndir í forföllum nefndarmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert