Ólafur Ragnar staðfestir nýtt fjölmiðlafrumvarp

Ólafur Ragnar Grímsson hefur staðfest ógildingu fjölmiðlafrumvarpsins.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur staðfest ógildingu fjölmiðlafrumvarpsins. mbl.is

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur ákveðið að staðfesta lagafrumvarpið sem fellir úr gildi fjölmiðlalögin sem sett voru í maí. Kemur það fram í yfirlýsingu frá forsetanum í dag.

Yfirlýsing Ólafs Ragnars er svohljóðandi:

Í yfirlýsingu minni 2. júní 2004 var áréttað að mikilvægt sé að lagasetning um fjölmiðla styðjist við víðtæka umræðu í samfélaginu og almenn sátt sé um vinnubrögð og niðurstöður. Sjálfstæðir og öflugir, fjölbreyttir og frjálsir fjölmiðlar séu hornsteinar lýðræðisins.

Alþingi hefur nú fellt úr gildi lögin sem ollu hörðum og langvarandi deilum og mynduðu djúpa gjá milli þingvilja og þjóðarvilja.

Það er andi íslenskrar stjórnskipunar að túlka beri stjórnarskrá og lagareglur á þann veg að sem mest sátt takist í samfélaginu.

Í anda slíkrar sáttar hef ég ákveðið að staðfesta lagafrumvarpið sem fellir úr gildi fjölmiðlalögin nr. 48/2004.

Bessastöðum, 27. júlí 2004

Ólafur Ragnar Grímsson"

mbl.is