Ákveðið að halda sérstakan norrænan fund um áfengismál

Forsætisráðherrar Norðurlanda í Eyjafirði í kvöld. Frá vinstri er Matti …
Forsætisráðherrar Norðurlanda í Eyjafirði í kvöld. Frá vinstri er Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finna, Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, Halldór Ásgrímsson, starfandi forsætisráðherra, Göran Persson, forsætisráðherra Svía og Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs. mbl.is/Kristján

Forsætisráðherrar Norðurlandanna voru sammála um það á fundi sínum í Sveinbjarnargerði í Eyjafirði í kvöld að fram fari sérstakur aukafundur heilbrigðis- eða félagsráðherra landanna þar sem rætt verði um áfengismál og verði fundurinn haldinn áður en næsti fundur forsætisráðherranna verður haldinn í nóvember. Áfengisgjöld hafa verið lækkuð á undanförnum misserum í Danmörku og Finnlandi til að draga úr ferðum til nágrannalanda þar sem áfengi er mun ódýrara. Einnig er þrýstingur á stjórnvöld í Svíþjóð og Noregi að gera slíkt hið sama en norsk stjórnvöld eru alfarið andvíg slíku.

Löndin ætla einnig að reyna að vinna að því innan Evrópusambandsins, að gjöld á strerkt vín og bjór verði hækkuð og tekið verði upp áfengisgjald á léttvín.

Fram kom á blaðamannafundi í kvöld, að enginn forsætisráðherrann vildi í raun lækka áfengisgjaldið en Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, sagði að lækkun gjaldsins þar í landi í vor hefði haft þau áhrif að verulega hefði dregið úr áfengiskaupaferðum Dana til Þýskalands. Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finna, sagði að lækkunin þar hefði leitt til þess að áfengisneysla hafi aukist um 10-15% sem sé ekki viðunandi.

Búist er við að fram komi tillaga í sænska þinginu í þessum mánuði um að áfengisgjald verði lækkað þar í landi. Göran Persson, forsætisráðherra, sagði í dag að enginn vildi lækka þessi gjöld en þegar áfengisverslunin færðist út fyrir landamærin yrði erfiðara að hafa stjórn á félagslegum hliðum vandans.

Málefni Íraks voru meðal umræðuefna á fundi forsætisráðherranna. Anders Fogh Rasmussen sagði að Norðurlöndin hefðu ekki verið sammála um hernaðaraðgerðirnar í Íran allir væru sammála um að alþjóðasamfélagið verði að aðstoða Íraka við að byggja upp þjóðfélagið og stíga fyrstu skrefin í átt að lýðræði. Danir eru með um 500 hermenn í Írak undir stjórn Breta.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og starfandi forsætisráðherra, var gestgjafi fundarins í veikindaforföllum Davíðs Oddssonar. Forsætisráðherrarnir munu á morgun ferðast um Norðurlanda.

mbl.is