Siv Friðleifsdóttir víkur úr ríkisstjórninni í næsta mánuði

Siv Friðleifsdóttir ræðir við blaðamenn að loknum þingflokksfundinum.
Siv Friðleifsdóttir ræðir við blaðamenn að loknum þingflokksfundinum. mbl.is/ÞÖK

Ákveðið var á þingflokksfundi Framsóknarflokksins í dag að Siv Friðleifsdóttir verði ekki ráðherra eftir 15. september þegar Sjálfstæðisflokkurinn, samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, fær til sín umhverfisráðuneytið. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, segist munu leggja til að breytingar verði gerðar á ráðherraliði Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni þegar ár verður eftir af kjörtímabilinu en ekki væri ákveðið hverjar þær breytingar eru. Siv sagði eftir þingflokksfundinn að hún hefði kosið aðra niðurstöðu, enda væri hún þvert á samþykktir helstu stofnana flokksins og hefðir sem ráðherraval byggði á. Hún sagðist hins vegar ætla að starfa ótrauð áfram í stjórnmálum.

Eftir 15. september verða þau Halldór Ásgrímsson, Árni Magnússon, Guðni Ágústsson, Jón Kristjánsson og Valgerður Sverrisdóttir ráðherrar Framsóknarflokksins, samkvæmt tillögu sem Halldór lagði fram á þingflokksfundinum í dag og var samþykkt. Fram kom hjá Halldóri að tillagan hefði ekki verið samþykkt einróma en ekki fékkst upplýst hvernig atkvæði féllu. Halldór sagði að það væri mikill einhugur innan þingflokksins.

Halldór sagði að það hefði legið lengi fyrir, að umhverfisráðuneytið færist yfir til Sjálfstæðisflokks þegar Framsóknarflokkurinn tekur við forustu í ríkisstjórn. Halldór sagði að erfitt hefði verið að gera þessa tillögu enda margir hæfir einstaklingar innan Framsóknarflokksins sem gætu gegnt ráðherraembætti en það væri ekki síður mikilvægt að hæfir einstaklingar gegni þingmennsku því það skipti mestu máli að flokkurinn skili góðu starfi sem heild. Sagðist Halldór viss um að kraftar Sivjar ættu eftir að njóta sín innan flokksins á Alþingi og annarstaðar. „Siv hefur unnið afar vel. Hún hefur unnið vel í flokknum, hún er ritari flokksins og við þurfum á henni að halda í flokksstarfinu. Ég er viss um að hún vinnur vel og gerir sér góða grein fyrir því hve mikilvægt það er."

Halldór sagði að mörg sjónarmið kæmu til álita í þessu sambandi en hann hlyti að gera tillögu um það hvernig flokkurinn skipti sér til verka með það í huga að hann geti skilað sem bestu starfi. „Þetta er mín tillaga núna og það kann að vera að ég muni gera tillögu um breytingar síðar. Og þetta er hlutskipti formanns, að gera slíkar tillögur," sagði Halldór. Hann lagði áherslu á að valdið í þessum efnum væri í höndum þingflokksins, en hann hefði lagt sína tillögu fram eftir að hafa rætt við hvern og einn þingmann. „Að sjálfsögðu legg ég ekki fram tillögu sem ég veit að ég fæ ekki samþykkta þannig að ég hlýt að taka mið af þingflokknum."

Halldór sagðist aðspurður ekki óttast ólgu í Framsóknarflokkum í kjölfar þessarar ákvörðunar. „Það er engin ólga í flokknum. Það eru eðlilega skiptar skoðanir innan flokksins og sem betur fer hefur hlutur kvenna verið að vaxa innan flokksins. Það ríkir mikill metnaður innan flokksins fyrir hönd kvenna og það finnst mér eðlilegt."

Halldór var spurður hvort breytingar yrðu á embættismönnum þegar þeir Davíð Oddsson skiptast á embættum í haust. Halldór sagði að það hefði ekki verið rætt. Hann sagðist þó frekar eiga von á því að Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, hyrfi til annarra starfa, en af hans hálfu hefði ekkert verið hugað að því hvað tekur við. „Þegar ég kem í forsætisráðuneytið verður Ólafur þar," sagði Halldór.

Nýr dagur eftir þennan dag
Siv Friðleifsdóttir sagði eftir þingflokksfundinn, að hún hefði gjarnan viljað vera áfram í ríkisstjórninni en niðurstaðan hefði orðið önnur að þessu sinni. „Þessi niðurstaða er reyndar þvert á samþykktir helstu stofnana flokksins, ein og flokksþings, kvennanna og ungliðanna okkar líka og hún er ekki í anda þess sem við höfum viljað sjá í kjördæminu, við framsóknarmenn. Og reyndar er niðurstaðan líka þvert á allar þessar almennu hefðir sem miðað hefur verið við þegar ráðherrar eru valdir. Það er alveg ljóst að það þarf að efla jafnréttisumræðu í landinu, að mínu mati.

En þrátt fyrir þessa niðurstöðu mun ég starfa ótrauð áfram í stjórnmálum og það kemur nýr dagur eftir þennan dag þannig að ég er ekki hætt," sagði Siv.

Hún sagðist aðspurð telja að hún gæti átt afturkvæmt í ríkisstjórn. „Ég hef fengið heilmikinn stuðning þessa síðustu daga, frá þeim sem hafa við mig rætt, og maður sér auðvitað allar þessar ályktanir og yfirlýsingar sem hafa komið en þingflokkurinn ræður, þetta er niðurstaðan og ég hlíti henni."

Mestu máli skiptir að hópurinn standi saman
Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, sagði eftir fundinn að niðurstaðan hefði verið nokkuð afdráttarlaus. Hann sagði að alltaf væri erfiðara að fækka en fjölga en þegar horft væri á jákvæðu hliðarnar þá hefði verið mjög mikið álag á þingflokknum innan þingsins, í störfum sem þar væri, og nú fjölgaði um einn þingmann sem ekki gegndi ráðherrastörfum. „En það sem mestu máli skiptir, finnst okkur, er að þessi hópur, hvort sem eru ráðherrar eða þingmenn, standi saman."

Þegar borin var undir Hjálmar óánægja, sem komið hefur fram að undanförnu, einkum meðal kvenna og framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, vegna þess að við blasti að Siv færi úr ríkisstjórninni, sagðist hann þekkja þau sjónarmið en mat þingflokksins hefði verið þetta að þessu sinni. Hins vegar hefði enginn stjórnmálaflokkur boðið jafn marga kvenráðherra og Framsóknarflokknum. Við upphaf samstarfs Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, árið 1995, hefði helmingur ráðherra flokksins verið konur en nú væri staðan þessi og hún gæti breyst.

Hjálmar sagði að þingflokkurinn myndu nú fara í að skipta með sér verkum í nefndum þingsins út frá breyttri stöðu.

Halldór Ásgrímsson eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins í dag.
Halldór Ásgrímsson eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins í dag. mbl.is/ÞÖK
mbl.is