Clinton segist hafa átt frábæran dag á Íslandi

Bill Clinton veifar til viðstaddra áður en hann gengur um …
Bill Clinton veifar til viðstaddra áður en hann gengur um borð í flugvél sína á Reykjavíkurflugvelli í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hjónin Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og Hillary Clinton, öldungadeildarþingmaður, fóru með flugvél frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 19:30 í kvöld áleiðis til Írlands. Bill Clinton sagði við blaðamenn að loknum fundi með Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra, og Sigurjónu Sigurðardóttur konu hans, að hann væri mjög ánægður með heimsókn sína hingað til lands. Dagurinn hefði verið frábær og Íslendingar afar vingjarnlegir.

Clinton sagði að á fundi hjónanna með Halldóri hefði aðallega verið rætt um orkumál. „Ég sagði honum að ég væri mjög hrifinn af því sem Hillary hefur heyrt um það starf sem Íslendingar hafa unnið á sviði vetnismála. Ég hef mikinn áhuga á þessu verkefni. Ég er að reyna að breyta stefnu Bandaríkjanna í orkumálum. Ég er auðvitað bara óbreyttur borgari núna, en ég geri mitt besta,“ sagði Clinton. Sagðist hann hafa lagt hart að sér vegna Kyoto-samningsins og að hann styddi hann. „Ég tel að Bandaríkin eigi að breyta orkustefnu sinni, frá því að leggja megináherslu á olíuiðnaðinn og huga að hreinni orkugjöfum,“ sagði Clinton. „Ég tel að Ísland geti orðið leiðandi í heiminum á þessu sviði,“ bætti hann við.

Spurður um skoðanamun George W. Bush, forseta, og John Kerry, forsetaframbjóðanda demókrata á umhverfismálum, sagði Clinton að frambjóðendurnir tveir hefðu ólíkar skoðanir á þessum málum rétt eins og í næstum öllum málum.

Hillary, sem er þingmaður fyrir New York-ríki var spurð um skoðun sína á því að flokksþing repúblikana fari fram í borginni í næstu viku. „Ég er alltaf ánægð þegar einhver fer til New York. Ég vona að þeir eyði tíma og peningum í borginni. Ég vona að þeir læri að meta New York eins og allir sem þangað koma gera. Ég býð þá velkomna til New York,“ sagði hún.

Halldór Ásgrímsson og Sigurjóna Sigurðardóttir ásamt Bill og Hillary Clinton …
Halldór Ásgrímsson og Sigurjóna Sigurðardóttir ásamt Bill og Hillary Clinton á tröppum Ráðherrabústaðarins í kvöld. mbl.is/Þorkell
mbl.is