Orku- og umhverfismál ofarlega í huga Clinton-hjónanna

Clinton-hjónin ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands og Dorrit Moussaieff, …
Clinton-hjónin ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands og Dorrit Moussaieff, konu hans. mbl.is/Gísli Þorsteinsson

Orku- og umhverfismál voru Clinton-hjónum ofarlega í huga í lok heimsóknar þeirra til Bessastaða síðdegis í dag. Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, lýsti ánægju sinni með heimsókna sína og sagði að umræðuefnið hafi einkum snúist um verkefni Íslendinga á sviði orkumála. Hann ræddi einnig mikilvægi þess að þróa nýja stefnu í orkumálum fyrir ríki heims. Hann taldi að margt væri hægt að læra af Íslendingum á þeim sviðum.

Hillary Clinton, núverandi öldungadeildarþingmaður og fyrrverandi forsetafrú, ræddi um ýmsar hliðar umhverfisvænnar okur, svo sem jarðhita og vetni. Hún sagði að Íslendingar hefðu tekið forystu í því að leita lausna í ljósi vaxandi gróðurhúsáhrifa. Hún sagði verkefni á sviði vetni spennandi og ætti ekki einungis eftir að skipta máli hér á landi heldur gætu íslenskir sérfræðingar og fyrirtæki kynnt slík verkefni víðar.

"Það er svo margt sem Íslendingar geta gefið heiminum á sviði umhverfisvænnar orku." Spurð hve fljótt bregðast þyrfti við hækkandi hitastigi í heiminum sagði Hillary að slíkt þyrfti að eiga sér stað strax. Hún sagði að Bandaríkin hefðu ekki fjallað nægilega mikið um þann vanda sem væri til staðar, önnur ríki hefðu tekið forystu í þeim efnum.

Í heimsókn Clinton-hjónanna til Bessastaða færði 19 ára einhverfur piltur, Sjafnar Gunnarsson, Bill Clinton mynd, sem hann teiknaði. Sjafnar er mikill áhugamaður um forseta Bandaríkjanna, sér í lagi Bill Clinton. Þá áritaði Bill Clinton ævisögu sína í hljóðbókarformi fyrir Sjafnar sem á 19 ára afmæli í dag. Bill Clinton þakkaði Sjafnari kærlega fyrir myndina og sagði ætla að taka hana með sér til Bandaríkjanna.

mbl.is