Styttist í að bormenn „slái í gegn“ í Fáskrúðsfjarðargöngum

Frá vinnu við gerð Fáskrúðsfjarðarganga.
Frá vinnu við gerð Fáskrúðsfjarðarganga. Ljósmynd/Páll Björgólfsson

Vinnu við gerð Fáskrúðsfjarðarganga miðar vel og styttist í að „slegið verði í gegn“ þar, eins og gangagerðarmenn kalla það þegar síðasta haftið er rofið. Göngin, sem verða 5.694 metrar á lengd, voru orðin 5.551 metri 23. ágúst sl. þannig að aðeins var eftir að grafa út 143 metra.

Ásgeir Loftsson, verkfræðingur og staðarhaldari Ístaks, sem er verktaki við gangagerðina, sagði í viðtali við Fréttavef Morgunblaðsins í dag að rétt rúmir eitt hundrað metrar væru ógrafnir. Hann vildi hafa vaðið fyrir neðan sig og sagði að þeir kæmust í gegn einhvern tíma í september. Gangurinn við borunina er frá um 20 metrum á viku upp í 100 metra. Ásgeir sagði að þeir væru með „smásetlag í þakinu“ í augnablikinu, sem tefði þá aðeins.

Verkið hefur gengið samkvæmt áætlun og eru um 90 manns á svæðinu við gerð ganganna og skálagerð Fáskrúðsfjarðarmegin en að lokinni henni verður farið í gerð vegskála Reyðarfjarðarmegin.

Mikil vinna er eftir þegar göngin hafa verið boruð út, vegagerð inni í göngunum, endanlegar vatnsvarnir og styrkingar. Að sögn Ásgeirs er mun minna um lekavatn í þessum göngum en Hvalfjarðargöngum, sem gerir að verkum að minna er um vatnsvarnir eins og heilklæðningar, sem er talsvert um í Hvalfjarðargöngum. Næstu misseri fara síðan í að ljúka við endanlegar styrkingar í göngunum.

Að sögn Ásgeirs verður þvermál Fáskrúðsfjarðarganga 53 fermetrar og verða tvær akreinar með útskotum með 500 metra millibili. Göngin verði því svipuð og Hvalfjarðargöng þar sem þau eru þrengst.

Áætluð verklok Fáskrúðsfjarðarganga eru í byrjun október 2005.

mbl.is