Geir H. Haarde: Reynsla af lögmannsstörfum og málflutningi réði skipuninni

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.

Geir H. Haarde, settur dómsmálaráðherra, segir að reynsla af lögmannsstörfum og málflutningi hafi verið lögð til grundvallar er hann skipaði í dag Jón Steinar Gunnlaugsson í dómarastarf við Hæstarétt.

„Þessi einstaklingur varð fyrir valinu vegna þess að hann var að öðrum ólöstuðum að mínum dómi hæfastur út frá því sjónarmiði, sem ég ákvað að leggja til grundvallar, sem var spurningin um reynslu af lögmannsstörfum og málflutningi,“ sagði Geir. Hann sagði að Hæstiréttur hafi áður bent á að samsetning hans væri með þeim hætti að þar væri skortur á mönnum með slíka reynslu.

„Það hefur ekki verið skipaður starfandi hæstaréttarlögmaður í réttinn síðan 1990 en sá lét reyndar af störfum 2001. Þannig að þeir hafa bent á það áður og sama hefur Lögmannafélagið nokkrum sinnum gert áður en þetta mál kom upp. Og með tilliti til þess ákvað ég að gefa þessu sérstakt vægi.

Ég skrifaði síðan réttinum bréf 20. september með hliðsjón meðal annars af ábendingum sem bárust frá umboðsmanni Alþingis í fyrra um það, að ef taka ætti til hliðsjónar eitthvað eitt atriði umfram önnur varðandi starfsreynslu, menntun eða þekkingu eða þess háttar, þá væri eðlilegt að það kæmi fram og réttinum gæfist kostur á að tjá sig um það áður en að embættið væri veitt.

Þetta gerði ég með bréfinu 20. september; sagðist ætla að gefa þessu atriði sérstakt vægi. Mér barst svar frá réttinum í fyrradag, viku síðar, sem reyndar bætir ekki í raun neinu við það sem þeir höfðu áður sagt í sinni umsögn. En þeim var gefinn kostur á að útvíkka það svar ef þeir vildu,“ segir Geir.

Hann segir að þegar þá hafi legið fyrir að afgreiða málið hafi hann haft til hliðsjónar að tveir umsækjendanna hefðu reynslu af lögmannsstörfum, að vísu mismikla. „Annar töluvert lengri en hinn svo munar mörgum árum og sá hefur einnig flutt margfalt fleiri mál í Hæstarétti af margvíslegum toga. Og sá maður varð fyrir valinu.

Auðvitað er það alltaf þannig þegar margir hæfir einstaklingar eru í boði þá er erfitt að gera upp á milli. En ég gerði það út frá þessum sjónarmiðum sem ég tel að séu fyllilega málefnaleg og í samræmi við það sem dómurinn hefur áður sagt sjálfur,“ sagði Geir H. Haarde.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert