Halldór: Jón Steinar er hæfur en hefði viljað Eirík í Hæstarétt

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði við fréttamenn nú síðdegis að hann telji Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmann, hæfan til að gegna starfi hæstaréttardómara, sem sé aðalatriðið. „Ég ætla hins vegar ekki að leyna því að ég tel að það hefði styrkt Hæstarétt verulega ef maður á borð við Eirík Tómasson hefði komið inn í Hæstarétt," sagði hann í fréttum Ríkisútvarpsins.

Halldór sagði að ljóst væri að ráðherra hefði skipunarvaldið í þessu máli; hann hefði sjálfur reynt það þegar hann skipaði hæstaréttardómara á sínum tíma sem dómsmálaráðherra. Hann sagðist aðspurður enga ástæðu hafa til að ætla að skipun Jóns Steinars væri pólitísk.

Hann sagði einnig, að hann hefði rætt þetta mál við forustumenn Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert