Ríkisstjórn samþykkir frumvarp um græðara

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, lagði fram frumvarp til laga um græðara á fundi ríkisstjórnar í morgun. Samþykkti ríkisstjórnin að senda frumvarpið þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna og að frumvarpið yrði lagt fram á Alþingi.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu eru meginþættir frumvarpsins þeir, að koma skal á frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis. Með almennu heilbrigðiskerfi er átt við alla heilbrigðisþjónustu sem veitt er af löggiltu heilbrigðisstarfsfólki, hvort sem ríkið tekur þátt í kostnaði við hana eða ekki. Er í frumvarpinu lögð rík áhersla á neytendavernd og að efla ábyrgð þeirra sem veita heilsutengda þjónustu eins og hún er skilgreind í frumvarpinu. Þeir sem veita þjónustu samkvæmt frumvarpinu eru nefndir græðarar.

Alþingi samþykkti vorið 2002 þingsályktunartillögu um stöðu óhefðbundinna lækninga. Þingmenn allra flokka báru tillöguna upp og var fyrsti flutningsmaður Lára Margrét Ragnarsdóttir. Var skipuð nefnd í árslok 2002 til að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga á Íslandi og bera saman við stöðu mála annars staðar á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum.

Samkvæmt þingsályktuninni fólst verkefni nefndarinnar m.a. í því að gera tillögur um hvernig brugðist skyldi við vaxandi umsvifum á sviði óhefðbundinna lækninga og að taka afstöðu til þess hvort viðurkenna skyldi nám í óhefðbundnum lækningum með því að veita mönnum starfsréttindi til að stunda þær.

Í áfangaskýrslu nefndarinnar kom fram að nefndarmenn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að æskilegt væri að gefa þeim sem sinntu óhefðbundnum lækningum kost á viðurkenningu að uppfylltum ákveðnum menntunarlegum og faglegum kröfum, án þess að um löggildingu væri að ræða. Með þessu móti taldi nefndin unnt að setja starfsemi græðara ákveðinn ramma og koma á fót virku eftirliti sem væri til hagsbóta jafnt græðurum og þeim sem nýta sér þjónustu þeirra. Nefndin taldi að þetta yrði best gert með lagasetningu og er frumvarpið niðurstaðan af starfi hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka