Þjófnaður á 380 lítrum af vodka upplýstur

Lögreglan í Borgarnesi hefur upplýst þjófnað á 380 lítrum af Pölstar-vodka sem stolið var úr birgðageymslum vínframleiðanda í Borgarnesi í byrjun mánaðarins. Að sögn lögreglunnar er málið að fullu upplýst og náðst hefur að endurheimta rúmlega helminginn af þýfinu eða um 50 kassa. Afgangurinn hefur væntanlega gufað upp enda er þarna um mjög rokgjarnan vökva að ræða.

Sagði Theodór Þórðarson yfirlögregluþjónn í Borgarnesi að rannsóknin hefði verið samvinnuverkefni lögregluliðanna í Borgarnesi, Reykjavík, Keflavík og á Akureyri. Sú samvinna hefði leitt til þess að málið upplýstist og áfengið endurheimtist að miklu leyti.

Áfenginu var stolið úr birgðageymslum í Borgarnesi í byrjun október. Þrír aðilar á tveimur ökutækjum stóðu að þessum þjófnaði en nokkrir fleiri munu þó tengjast málinu.

mbl.is