Ísland í efstu sætum í nýrri lífsgæðaskýrslu

Ísland er í hópi þeirra ríkja þar sem velferð þegnanna er mest. Þetta kemur fram í skýrslu, sem Pennsylvaníuháskóli hefur sent frá sér og byggir á upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðabankanum.

Í efstu sætum á lista yfir rúmlega 160 ríki eru Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Finnland, Ísland, Lúxemborg, Þýskaland, Austurríki, Ítalía og Belgía. Í neðstu sætum eru Afganistan, Erítrea, Eþíópía, Sierra Leone, Angóla, Líbería, Gínea. Tsjad og Lýðveldið Kongó.

Í skýrslunni er m.a. lagt mat á það hvernig ríki mæti þörfum þegnanna varðandi heilbrigðisþjónustu, menntun, mannréttindi og menningarfjölbreytni.

Bandaríkin eru í 27. sæti og hafa lækkað úr því 18. „Við erum nú á sama báti og Pólland og Slóvenía, hefur AFP fréttastofan eftir Richard Estes, prófessor og höfundi skýrslunnar. Segir hann að viðvarandi fátækt sé helsta ógnun við félagslegar framfarir í Bandaríkjunum og yfir 36 milljónir Bandaríkjamanna, þar af nærri 13 milljónir barna, séu undir skilgreindum fátæktarmörkum.

Þá segir Estes að á síðasta áratug hafi lífsgæði versnað til muna á stórum svæðum í Afríku og Asíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert