Eldvarnareftirlitið hafði bent á eldhættu af dekkjahaug Hringrásar

Slökkviliðið er enn að störfum á athafnasvæði Hringrásar. Þessi mynd …
Slökkviliðið er enn að störfum á athafnasvæði Hringrásar. Þessi mynd var tekin úr lofti nú um hádegisbil í dag. mbl.is/RAX

Eldvarnaeftirlitið var búið að koma auga á þá hættu, sem almenningi gæti stafað af dekkjahaug á starfssvæði Hringrásar, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg. Eftirlitið skrifaði eigendum Hringrásar harðort bréf í júní 2004 þar sem var bent á hættuna og krafist skriflegrar greinargerðar um hvað fyrirtækið hygðist gera til úrbóta. Bréfinu var svarað í lok september sl. og þá gefin fyrirheit um að dekkin yrðu fjarlægð innan nokkurra vikna. Við það var ekki staðið.

Hringrás er endurvinnslufyrirtæki og því starfsleyfisskylt sem mengandi starfsemi. Umhverfisráðuneytið gaf út fyrsta starfsleyfi fyrirtækisins árið 1991 en árið 1998 úrskurðaði umhverfisráðherra að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur bæri að gefa út starfsleyfi til fyrirtækisins.  Slíkt starfsleyfi var gefið út í september 1999 til 5 ára og rann því út í september á þessu ári. Ekki hafa komið upp alvarleg vandamál á starfsleyfistímanum en eftirlit Mengunarvarna beinist aðallega að frárennslismálum og umgengni.  

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjóra fóru starfsmenn Mengunarvarna Umhverfis- og heilbrigðisstofu í reglubundið eftirlit til Hringrásar í september sl. og áttu fund með forsvarsmönnum fyrirtækisins um endurnýjun starfsleyfis.  Verið sé að vinna að endanlegri útfærslu starfsleyfisskilyrða með fyrirtækinu og því hafi nýtt starfsleyfi ekki ennþá verið gefið út. Mengunarvarnir hafi gert athugasemdir við geymslu rafgeyma hjá fyrirtækinu og miða breytt starfsleyfisskilyrði m.a. að því að koma því í betri farveg. Segir borgin að þetta sé hefðbundinn farvegur við endurnýjun starfsleyfis þegar ekki sé bráð mengunarhætta á ferð, en ástæða sé talin til þess að endurskoða starfsleyfisskilyrði fyrir útgáfu nýs starfsleyfis.

Fulltrúi Mengunarvarna er á staðnum og fylgist með slökkvistarfi og samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg þarf að skoða hvað gert verður við mengaðan úrgang á staðnum þegar slökkvilstarfi lýkur.  Fulltrúar Umhverfisstofnunar eru nú að fara yfir áhrif reykmengunarinnar.  Starfsmenn Mengunarvarna og Hollustuhátta eiga samráði við lögreglu að meta aðstæður í nálægum íbúðum og hvenær verði óhætt fyrir íbúa að flytja inn.

Þá eru borgaryfirvöld að fara yfir atburðarrás gærkvöldsins og næturinnar og segja að á þessu stigi virðist sem öll viðbragðskerfi hafi virkað sem skyldi.

Svo virðist sem eldurinn sé að mestu kulnaður í dekkjahaugnum …
Svo virðist sem eldurinn sé að mestu kulnaður í dekkjahaugnum á svæði Hringrásar og reyk er hætt að leggja yfir íbúðabyggð. mbl.is/Júlíus
Slökkviliðsmenn að störfum í nótt.
Slökkviliðsmenn að störfum í nótt. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert