Plácido Domingo á tónleikum í Egilshöll í mars

Plácido Dominco.
Plácido Dominco. AP

Spænski tenórsöngvarinn Plácido Domingo er væntanlegur hingað til lands í mars á næsta ári, þar sem hann mun halda tónleika í Egilshöll í Grafarvogi þann 13. þess mánaðar. Sinfóníuhljómsveit Íslands mun leika með Domingo á tónleikunum undir stjórn Eugene Kohn auk íslenskra einsöngvara og kórs, þó að ekki hafa verið teknar endanlegar ákvarðanir um val í þeim efnum.

Í boði verða um 5.000 sæti á tónleikunum og verður miðaverð frá 9900 krónum.

Plácido Domingo starfar sem óperusöngvari, hljómsveitarstjórnandi og óperustjóri og þykir einn fremsti listamaður heims í dag á sviði óperulistarinnar. Hann er fæddur í Madrid á Spáni en fluttist til Mexíkó átta ára gamall, þar sem hann hlaut tónlistarmenntun sína. Frumraun hans á óperusviðinu var Alfredo úr La Traviata í Monterrey-óperunni, en eftir hana starfaði hann í ísraelsku þjóðaróperunni í tvö og hálft ár. Árið 1966 kom hann fyrst fram í Bandaríkjunum og tveimur árum síðar þreytti hann frumraun sína við Metropolitan-óperuna í New York og er starfsárið nú hið 36. sem hann starfar við óperuhúsið.

Domingo kemur aukinheldur reglulega fram við öll helstu óperuhús heims og hefur sungið 120 ólík óperuhlutverk og sungið inn á yfir 100 geisladiska, en þar af eru 97 óperur í fullri lengd. Um þessar mundir stjórnar hann bæði þjóðaróperunni í Washington og Los Angeles-óperunni, og var um tíma orðaður við stöðu óperustjóra Metropolitan. Hann hefur ennfremur staðið fyrir ýmsum verkefnum til styrktar upprennandi óperusöngvurum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert