Dæmdur í fangelsi fyrir að stela jakka og debetkorti

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í 30 daga fangelsi fyrir að stela jakka af snúru við hús á Akureyri. Í jakkanum var debetkort og notaði maðurinn það til að stela 7.832 krónum af bankareikningnum í viðskiptum við ýmsa aðila á Akureyri.

Fram kemur í dómnum að maðurinn á talsverðan sakaferil að baki og hefur fengið fjölda fangelsisdóma auk þess að vera alloft refsað fyrir umferðarlagabrot. Dómarinn segir í niðurstöðu, að við ákvörðun refsingar þyki mega líta til þess að brot mannsins voru ekki stórvægileg og að hann hafi að fullu bætt tjón það sem af þeim hlaust. Því þótti, þrátt fyrir sakaferil ákærða, mega dæma honum lágmarksrefsingu vegna brotanna, eða 30 daga fangelsi en ekki þótti fært að skilorðsbinda refsingu hans.

mbl.is