Kærði sjálfan sig vegna fíkniefna sem hann fékk ekki fyrir fartölvuna

Ungur maður ákvað fyrir helgina að fara inn í tölvubúð og kaupa sér dýra fartölvu. Ætlunin var að borga hana aldrei heldur nota hana í skiptum fyrir fíkniefni. Á endanum kærði hann sjálfan sig.

Í versluninni fékk maðurinn tölvuna auðveldlega á raðgreiðslum til 48 mánuða. Eftir að hafa undirritað samninginn gekk hann úr úr versluninni með tölvuna undir arminum.

Á leiðinni ákvað hann, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, að fara með tölvuna til sölumanns fíkniefna er hann hafði átt skipti við og fá í staðinn nokkur grömm af kókaíni.

Þegar á hólminn var komið sá hann, allsgáður þessa stundina, að verðmætamunurinn var að hans mati einum of mikill. Fyrir 190.000 krónu tölvuna átti hann að fá 20.000 króna skammt af kókaíni. Mismunurinn var um 170.000 krónur.

Maðurinn ákvað því að halda tölvu sinni og fór með hana heim í leiguherbergið sitt. Um kvöldið fór fólk að þyrpast að honum að venju. Vinur hans var orðinn þurfandi. Hann rak augun í fartölvuna og spurði hvort hann mætti ekki fara með hana og skipta á henni og fíkniefnum. Það var samþykkt.

En þegar vinurinn lét ekki sjá sig með fíkniefnin ákvað fartölvueigandinn að kæra málið til lögreglu. Hann viðurkenndi kaupin og að ætlunin hafi verið að standa ekki í skilum með afborganir af fartölvunni, enda hún einungis ætluð til vöruskipta. En þegar vinurinn hafi ekki látið sjá sig með fíkniefnin hafi hann orðið illur og ákveðið að kæra hann.

Krafðist hann þess að fá tölvuna til baka, en ef ekki, þá a.m.k. fíkniefnin, sem hann átti af sanngirni að hafa fengið í skiptum fyrir hana.

Þetta er lýsing á raunveruleika í íslensku samfélagi nútímans, að sögn Ómars Smára Ármannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Reykjavík.

mbl.is