Svarað í síma Íslandsbanka á Ísafirði

Íslandsbanki hefur tekið ákvörðun um að símaskiptiborð bankans verði staðsett á Ísafirði. Tveir starfsmenn hefja störf við símaskiptaborðið á Ísafirði á næstu vikum og er gert ráð fyrir að stöðugildin verði orðin yfir tíu á fyrri hluta ársins 2006.

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum, að breytingin verði í áföngum þannig að nýráðningar á símaskiptiborðið verði á Ísafirði en núverandi skiptiborð verði starfrækt áfram í Reykjavík um sinn. Símaskiptiborð Íslandsbanka verði í útibúi Íslandsbanka að Hafnarstræti 1 á Ísafirði. Níu starfsmenn vinna í útibúinu, þannig að heildarstarfsmannafjöldi verður um 20 á fyrri hluta ársins 2006.

Nú vinna tíu starfsmenn við símaskiptiborð Íslandsbanka og eru stöðugildin átta. Símaskiptiborðið tekur við öllum símhringingum sem bankanum berast og er það í höfuðstöðvum bankans að Kirkjusandi. Bankinn segir, að þeir tveir starfsmenn sem ráðnir verði á næstu vikum bætist við starfsmannafjöldann og sé gert ráð fyrir frekari fjölgun á næstu mánuðum vegna aukinna verkefna.

Ekki hefur komið til neinna uppsagna vegna flutnings símaskiptiborðsins. Segist Íslandsbanki muni leitast við að flytja þá starfsmenn símaskiptiborðsins, sem þess óski, til í starfi innan bankans og bjóða þeim upp á endurmenntun í því skyni.

mbl.is