Ingibjörg Sólrún: Nýtt og ögrandi verkefni

Ljóst er að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur fast sæti á Alþingi þegar Bryndís Hlöðversdóttir hættir á þingi 1. ágúst í sumar til að taka við embætti deildarforseta lagadeildar Viðskiptaháskólans á Bifröst.

Ingibjörg Sólrún sagði eftir þingflokksfund Samfylkingarinnar í dag, þar sem málið var rætt, að hún hefði ekki fengið mikinn tíma til að velta því fyrir sér þar sem ákvörðun Bryndísar hafi borið brátt að og hún hafi ekki vitað af henni fyrr en um helgina.

„Ég hef ekki haft mikinn tíma til að velta því fyrir mér. Þetta er nýtt og ögrandi verkefni að takast á við og gaman að gera það og láta þessi mál til sín taka," sagði Ingibjörg Sólrún.

mbl.is