Hannes Hólmsteinn: Hefði átt að vísa oftar í Peter Hallberg og Halldór Laxness

„Ég er sammála Guðmundi Jónssyni sagnfræðingi (og Helgu Kress) um það, að ég hefði átt að vísa oftar til Peters Hallbergs, sem ég hafði mikið gagn af, í bók minni, Halldór, sem kom út árið 2003. Ég hélt, að ein allsherjartilvísun í eftirmála, þar sem ég tók fram, hversu mikið gagn ég hefði haft af ritum Hallbergs, nægði. En ég sé nú, að svo er ekki. Hallberg átti auðvitað skilið, að ég vitnaði oftar til hans, ekki síst í meginmáli."

Þetta kemur fram í svari Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors við opnu bréfi Guðmundar Jónssonar, prófessors í sagnfræði, sem sent var út til allra starfsmanna Háskóla Íslands í gær. Hannes segir að það hafi "blátt áfram [orðið] útundan að vísa nægilega ört og skýrt til þeirra Laxness og Hallbergs," en í svarinu tekur hann einnig undir þá gagnrýni Guðmundar og Helgu Kress að hann hefði átt að afmarka skýrar, hvað í köflum bókarinnar um æsku Laxness er sótt í æskuminningabækur hans, og vísa oftar í ritin neðanmáls. "Bókin hefði ekki spillst við það," segir Hannes í svari sínu. " Ég hefði vissulega átt að stytta endursagnir mínar úr þessum bókum og gera texta minn ólíkari texta Laxness. Þetta var athugaleysi af minni hálfu. Það er því sorglegra sem það hefði í hæsta lagi kostað mig nokkurra daga vinnu að kippa þessum atriðum í lag. Það var ekki tímaskortur, sem réð þessari yfirsjón, heldur hitt, að ég beindi athyglinni í aðra átt. Ég lagði mig fram um að láta Halldór Kiljan Laxness njóta sannmælis í bók minni, halla hvergi á hann, og líka að gera frásögnina læsilega og fróðlega, svo að bókin yrði við alþýðu skap."

Háskólayfirvöld taki málið föstum tökum

Guðmundur krefst þess í opna bréfinu sem beint er til rektors að háskólayfirvöld taki þær ásakanir sem komið hafa fram um vinnubrögð Hannesar Hólmsteins föstum tökum og kveði skýrt upp úr með það hvort viðurkenndar fræðireglur um meðferð heimilda hafi verið brotnar. "Þannig sýnir Háskólinn í verki að siðareglur hans eru meira en orðin tóm og gefur jafnframt ótvírætt til kynna að svipaðar siðareglur gildi í Háskóla Íslands og í háskólum erlendis."

Segist Guðmundur hafa fengið spurnir að því að siðanefnd HÍ, sem falið var að kanna málið, ætli ekki að aðhafast frekar í því. "Ég tel hins vegar að háskólayfirvöld geti ekki leitt svo alvarlegar ásakanir um óvönduð fræðileg vinnubrögð hjá sér og þeim beri að taka skýra afstöðu gegn ritstuldi. Umræðan er sérlega mikilvæg innan sagnfræðinnar þar sem rík áhersla er lögð á vandaða meðferð heimilda. Til nemenda í sagnfræði eru gerðar þær kröfur að þeir sýni hvar þeir leiti fanga í ritsmíðum, að þeir forðist mistúlkun og afbökun heimilda, í stuttu máli, að þeir sýni heilindi gagnvart bæði lesendum og öðrum höfundum."

Hannes bendir á að hann sé að vinna að svari við ritgerð Helgu í tímaritinu Sögu og sér finnist að Guðmundur hefði mátt bíða eftir því svari.

Í svari sem Helga Kress skrifar við bréfum Hannesar og Guðmundar í gær kemur fram að engin svör hafi borist frá háskólarektor við ítarlegri skýrslu um vinnubrögð Hannesar Hólmsteins. Var skýrslan að sögn Helgu send rektor sl. haust.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert