Starfsmenn RÚV lýsa yfir vantrausti á Markús Örn

Frá fundi starfsmanna Ríkisútvarpsins í dag.
Frá fundi starfsmanna Ríkisútvarpsins í dag. mbl.is/Sverrir

„Það er mjög mikil reiði og mjög mikil gremja (hér innanhúss) sem endurspeglast í þessari ályktun. Menn samþykkja ekki vantraust á yfirmann einhverrar stofnunar nema þeir séu úrkula vonar um að hann ætli að bera klæði á vopnin,“ sagði Jóhanna Margrét Einarsdóttir formaður Starfsmannasamtaka ríkisútvarpsins (RÚV) um félagsfund í dag þar sem 93,2% starfsmanna samþykktu vantraust á Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra.

Aðspurð kvaðst Jóhanna Margrét ekki vilja tjá sig um hvort eða til hvaða aðgerða yrði gripið í útvarpshúsinu við Efstaleiti á morgun er nýr fréttastjóri, Auðun Georg Ólafsson, mætir þar til starfa. „Við höfum það eftir útvarpsstjóra að Auðun Georg mætir hér til starfa klukkan níu í fyrramálið,“ sagði Jóhanna.

Á fundi starfsmanna ríkisútvarpsins var tillaga um vantraust á útvarpsstjóra vegna ráðningar Auðuns Georgs Ólafsson í stöðu fréttastjóra útvarpsins samþykkt með 178 atkvæðum, 12 sögðu nei og einn skilaði auðu. Tillagan var því samþykkt með 93,2% atkvæða.

Að sögn Jóhönnu Margrétar tók einn þeirra sem greiddu tillögunni mótatkvæði til máls og lýsti þeirri skoðun sinni að fréttamennirnir væru að misnota aðstöðu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert