Segir engum upplýsingum um Kárahnjúkavirkjun hafa verið leynt

Orkustofnun segir, að engum upplýsingum hefur verið leynt af hálfu hennar eins og gefið hafi verið í skyn í umræðu í fjölmiðlum undanfarið um athugasemdir Gríms Björnssonar, jarðeðlisfræðings á Íslenskum orkurannsóknum og fyrrverandi starfsmanns rannsóknasviðs Orkustofnunar.

Á heimasíðu Orkustofnunar segir, að Grímur hafi komið athugasemdum sínum varðandi hönnunarforsendur Kárahnjúkavirkjunar á framfæri við yfirmenn sína hinn 14. febrúar 2002. Orkumálastjóri hafi strax haldið fund um málið með nokkrum lykilstarfsmönnum stofnunarinnar, þ.m.t. Grími. Hinn 18. febrúar sama ár hafi orkumálastjóri komið athugasemdunum á framfæri við Landsvirkjun og skýrt iðnaðarráðuneytinu frá málinu. Það hafi orkumálastjóra þótt vera réttur farvegur málsins enda bar Landsvirkjun, sem framkvæmdaraðili, ábyrgð á rannsóknum og undirbúningi hönnunar framkvæmda vegna Kárahnjúkavirkjunar, en Orkustofnun hafði þar ekki formlegu hlutverki að gegna.

„Þann 6. mars 2002 var haldinn fundur með fulltrúum Orkustofnunar, þ.m.t. Grími Björnssyni, og fulltrúum Landsvirkjunar, þ. á m. ráðgjöfum fyrirtækisins um jarðfræðilegar forsendur framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Fundarefnið voru fram komnar athugasemdir Gríms. Fullyrt hefur verið að ekki hafi verið brugðist við ábendingum Gríms fyrr en eftir að Alþingi hafði samþykkt heimildarlög um virkjunina. Þetta er rangt enda voru lögin ekki samþykkt fyrr en rúmum mánuði eftir téðan fund, eða 8. apríl.

Að mati orkumálastjóra var öllum athugasemdum Gríms Björnssonar svarað á fundinum 6. mars, utan einni: þ.e. hvort hætta væri á umtalsverðu landsigi vegna þunga Hálslóns. Því leitaði Landsvirkjun til dr. Freysteins Sigmundssonar, forstjóra Norrænu eldfjallastöðvarinnar og sérfræðings á viðkomandi sviði, um athugun á því atriði. Niðurstaða hans frá 3. desember 2003 er m.a. að „búast megi við um 30 cm sigi vegna lónsins” og að „telja verði ólíklegt að spennubreytingar í jarðskorpunni vegna fergingarinnar hafi nokkur áhrif á kvikuhreyfingar í jarðskorpunni.”

Hinn 8. janúar 2003 barst Orkustofnun ósk frá Náttúruverndarsamtökum Íslands um að fá afhent öll gögn um þetta mál. Með bréfi orkumálastjóra þann 9. sama mánaðar var orðið við þeirri beiðni. Um sama leyti voru fréttamanni RÚV afhent sömu gögn.

Orkustofnun telur ljóst af því sem að framan greinir að rétt hafi verið brugðist við þeim athugasemdum sem starfsmaður stofnunarinnar setti fram, þeim komið á framfæri við rétta aðila og þar með hafi málinu verið komið í réttan farveg. Áréttað skal að Landsvirkjun ber ábyrgð á hönnun virkjunarinnar og það var því fyrirtækisins að meta hvort athugasemdir Gríms væru þess eðlis að þær kölluðu á viðbrögð á opinberum vettvangi.

Stofnunin hefur hvorki leynt athugasemdum Gríms Björnssonar né með neinu móti stungið þeim undir stól, eins og nefnt hefur verið í fjölmiðlum," segir á heimasíðu Orkustofnunar.

mbl.is