Hægt að ýta stórum verkefnum úr vör með sölu Símans

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, sagðist á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag, telja að hægt væri að ýta bæði nýju hátæknisjúkrahúsi og Sundabraut úr vör með þeim fjármunum sem fást við sölu á Símanum.

Davíð sagði, að þeir Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, hefðu nefnt þessi verkefni sérstaklega og sér þætti þau skýra mjög vel út á hvað sala Símans gangi.

„Við erum að leysa úr læðingi 60-80 milljarða hagnað, sem bundinn er í Símanum. Það verður engin breyting á þjónustunni við fólkið, nema kannski að hún batni eins og gerðist með bankana," sagði Davíð.

Hann sagði að í stór verkefni, hvort um væri að ræða hátæknisjúkrahús eða Sundabraut, þyrfti sérstakt átak. Og með sölu Símans væri leyst úr læðingi fjármagn sem hægt væri að nota í þessu skyni.

Davíð sagði að í umræðu um Héðinsfjarðargöng hefði verið sagt að forgangsröðin væri röng. En fyrir 10 árum, í upphafi samstarfs ríkisstjórnarflokkanna, hefði verið byrjað á allt öðrum verkefnum og ekki farið að huga að svona verkefnum fyrr en því takmarki var náð aö 95% umferðarinnar væri á bundnu slitlagi. Þetta væri því í samræmi við forgangsröðina; byrjað hefði verið á öðru fyrr. Sundabraut hefði ekki verið tilbúin því yfirvöld í Reykjavík væru ekki búin að taka ákvarðanir um leiðina sem þau vildu fara. Því hefði ekki þýtt að verja fjármunum til þeirrar framkvæmdar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert