Fæðingar ónógar til að viðhalda mannfjölda Íslendinga til lengri tíma

Alls fæddust 4.234 börn hér á landi árið 2004, 2.176 drengir og 2.058 stúlkur. Undanfarin fimm ár hefur frjósemi verið undir þeim viðmiðum sem hún þarf að vera til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma.

Algengasti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemin þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið.

Að sögn Hagstofunnar hefur Ísland legið nokkuð undir þessu viðmiði undanfarin ár. Í fyrra mældist frjósemin 2,0 börn á ævi hverrar konu. Þetta er meiri frjósemi en víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum og í engu landi í Evrópu nema í Tyrklandi er frjósemi meiri en hér.

Á 20. öldinni varð frjósemi hér á landi mest undir lok 6. áratugarins en þá voru lifandi fædd börn á ævi hverrar konu um 4,2. Frjósemi minnkaði mjög ört á 7. áratugnum og féll niður fyrir 3 um 1970 og varð lægri en 2 um tveggja ára skeið um miðbik 9. áratugarins. Eftir það hækkaði frjósemi á Íslandi tímabundið en lækkaði aftur í upphafi 10. áratugarins. Frjósemi eftir fæðingarárgöngum mæðra leiðir í ljós heldur minni sveiflur í frjósemi á 20. öldinni en fram kemur þegar frjósemi er reiknuð út frá viðmiðunarári.

Lækkuð frjósemi hefur haldist í hendur við hækkaðan meðalaldur mæðra. Lægstur var meðalaldur frumbyrja 21,3 ár á árabilinu 1966-1970 en er nú 26 ár. Sífellt fátíðara verður að konur eigi börn áður en þær ná 25 ára aldri. Fram undir 1980 var algengasti barneignaraldurinn 20-24 ár en lækkun fæðingartíðni er mest áberandi í þessum aldurshóp kvenna. Unglingamæðrum hefur einnig fækkað jafnt og þétt á þessu tímabili.

Þriðjungurinn hjónabandsbörn en helmingur sambúðarbörn

Aðeins rúmlega þriðjungur barna á Ísland fæðist nú innan vébanda hjónabands (36,3%) en tæplega helmingur (47,2%) innan óvígðrar sambúðar foreldra. Talsverður munur er á hjúskapar- og sambúðarstöðu mæðra eftir því hvar í systkinaröðinni barnið er.

Eftir því sem ofar dregur í systkinaröðinni fjölgar börnum sem fæðast innan hjónabands og börnum sem eiga foreldra í óvígðri sambúð fækkar að sama skapi.

mbl.is