Ræddi meðal annars mannréttindamál við forseta Kína

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Hu Jintao, forseti Kína, …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Hu Jintao, forseti Kína, ganga fram hjá herverði fyrir utan höll alþýðunnar í Peking síðdegis í dag. mbl.is/Karl Blöndal.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Hu Jintao, forseti Kína, ræddust síðdegis í dag við í Höll alþýðunnar í Peking. Við byrjun fundarins ræddu þeir báðir um vináttu og góð samskipti þjóðanna. Kvaðst forseti Kína binda vonir við góðan árangur af heimsókn Ólafs Ragnars til Kína.

Ólafur Ragnar sagði eftir fundinn að þeir hefðu einkum rætt samskipti Íslands og Kína, en mannréttindamál hefðu einnig verið rædd og mikilvægi opinnar umræðu um þann málaflokk.

Í dag er annar dagurinn í sjö daga heimsókn forsetans til Kína. Mikil áhersla er lögð á aukin samskipti í þessari ferð, ekki síst á viðskiptasviðinu. Fjórir samningar voru undirritaðir að loknum fundi forsetanna. Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra undirritaði af Íslands hálfu tvo samninga, annan um samstarf á sviði jarðskjálfta og hinn um samstarf á sviði umhverfismála. Hafþór Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Avion Group, undirritaði samning á milli Air Atlanta og AMECO um eftirlit og viðhald flugvéla félagsins í Kína. Þá undirritaði Björgólfur Thor Björgólfsson samning regnhlífarfyrirtækisins Novator við kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei um farsímakerfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert