Indlandsforseti hitti háskólanema í Öskju

Forseti Indlands hitti nemendur í Öskju náttúrfræðahúsi Háskóla Íslands í …
Forseti Indlands hitti nemendur í Öskju náttúrfræðahúsi Háskóla Íslands í dag. mbl.is

Menntun, heilsugæsla, atvinna, efling landbúnaðar, upplýsingatækni og innra kerfi á borð við nægt rafmagn og vatn, er á meðal þess helsta sem þarf að bæta í Indlandi til að skapa velmegun hjá þjóðinni, að því er fram kom í erindi Dr. A.P.J. Abdul Kalams, forseta Indlands, sem hitti nemendur í Öskju náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands í dag.

Hann sagði að 260 milljónir Indverja lifðu undir fátæktarmörkum eða um 26% þjóðarinnar. Sagði hann að markmiðið væri að búið yrði að útrýma fátækt árið 2020. Þá sagði hann að hagvöxtur í landinu væri 6% en stefnt yrði á að hann yrði 10% árið 2020. Færði hann rök fyrir því að vísindi og tækni væru lykillinn að velmegun fyrir alla.

Hann sagði aðspurður að kjarnorka, vetnisorka og sólarorka væru sú orka sem lögð yrði áhersla á að nota í framtíðinni í Indlandi. Þá svaraði hann fleiri spurningum nemenda, m.a. um stéttaskiptingu, réttindi samkynhneigðra, mannfjöldastjórnun í Indlandi.

Kalam hafði sjálfur óskað eftir því að fá að hitta nemendur en hann hefur lagt áherslu á að tala við námsfólk á ferðum sínum. Segist hann hafa hitt yfir 600 þúsund nema á ferðum sínum.

mbl.is