Vatnsleki í húsi við Þórsgötu

Tilkynnt var um vatnsleka á fjórðu hæð í húsi við Þórsgötu í Reykjavík um klukkan hálf fjögur í nótt. Þegar Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins mætti á staðinn var nokkuð af volgu vatni á gólfi íbúðarinnar og lak volgt vatn niður alla stigaganga. Mest var vatnið á neðsta stigagangi hússins. Gleymst hafði að skrúfa fyrir blöndunartæki á baði í íbúðinni á fjórðu hæð. Gólfefni á íbúð og sameign hússins voru nokkuð skemmd. Um hálftíma tók að sjúga upp vatnið af gólfum hússins með öflugum dælum.

Þá barst slökkviliðinu tilkynning um eld í potti á eldavélarhellu í húsi á höfuðborgarsvæðinu um klukkan hálf tíu í gærkvöldi. Allir bílar voru sendir á staðinn en þegar þangað var komið hafði íbúi slökkt sjálfur í eldinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert