Allir starfsmenn Landsbankans í Lundúnum óhultir

Allir starfsmenn Landsbankans í Lundúnum eru óhultir að því er segir í fréttatilkynningu frá bankanum. Þar segir að um leið og fregnir bárust af hryðjuverkaárásunum í morgun hafi verið haft samband við starfsmenn Landsbankans í borginni og verktaka á vegum bankans. Búið var að fá upplýsingar um þá alla fyrir klukkan 11 að íslenskum tíma.

Farið var eftir hefðbundnum áætlunum sem fylgt er í bankanum í aðstæðum sem þessum og kapp lagt á að komast í samband við alla starfsmenn bankans í borginni, segir í tilkynningunni. Á fimmta tug Íslendinga eru í Lundúnum á vegum Landsbankans í dag. Annars er vegar eru það starfsmenn bankans en einnig stór hópur iðnaðarmanna sem vinnur að endurbótum á húsnæði bankans í Beauford House. Þar eru einnig höfuðstöðvar verðbréfafyrirtækis Landsbankans í Lundúnum; Teather & Greenwood.

Ein sprengingin í morgun var við East Aldgate neðanjarðarlestarstöðina sem er í næsta nágrenni við Beauford House. Sprengingin fannst vel í byggingunni. Búið er að fá upplýsingar um alla sem starfa fyrir bankann í Lundúnum og starfsmenn dótturfélaga Landsbankans, Teather & Greenwood og Heritable Bank. Þeir eru allir óhultir.

Í dag munu starfsmenn bankans í Lundúnum og starfsmenn Teather & Greenwood fá að fara heim eins fljótt og mögulegt er. Þá er unnið að því að koma þeim starsfmönnum bankans sem búsettir eru á Íslandi aftur heim en truflanir á samgöngum innan borgarinnar kunna að valda einhverjum töfum á því.

Ljóst er að hryðjuverkaárásirnar í Lundúnum í dag munu valda truflunum á starfsemi í starfsstöðvum Landsbankans í Lundúnum sem og annarri starfsemi þar í borg, segir í tilkynningu bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert