„Fékk að komast í síma hjá tryggingafyrirtæki“

mbl.is/Andrés

„Menn eru slegnir hérna, annar hver maður búinn að vera að reyna að hringja í farsíma. Bílaumferð liggur niðri, það er búið að rýma stóran hluta bygginga í City og lögregla er á hverju strái,“ segir Haukur Þór Haraldsson, framkvæmdastjóri rekstarsviðs hjá Landsbankanum sem er staddur í City í Lundúnum í viðskiptaerindum.

Hann segist hafa verið á leið á fund með leigubíl í Beaufort House þegar sprengingarnar urðu. „Ég komst ekki þangað en núna staddur í hjá Howdens tryggingafyrirtækinu þar sem ég þekki menn og fékk að koma inn til að komast í síma til að láta vita af mér,“ segir hann. „Ég komst hingað inn en má ekki fara út, öllum hefur verið bannað að fara út úr húsinu,“ segir hann og bætir við að hjá fyrirtækinu hafi verið ákveðið að allir fái að fara heim um leið og yfirvöld leyfa fólki að fara út á götur. „Það er hins vegar óljóst hvernig fólki mun ganga að komast heim því það liggja allar lestir og strætisvagnar niðri.“

Aðspurður hvernig fólk taki þessu segir hann að menn séu að sjálfsögðu slegnir en taki þessu þó með æðruleysi að hætti Breta. „Fréttir eru mjög óljósar, í sumum fréttum er sagt að 100 séu látnir í öðrum að 20 séu látnir. Svo var sá orðrómur á kreiki að slökkt hefði verið á öllum farsímakerfum af því að hryðjuverkamennirnir hefðu notað farsíma til að setja sprengjur af stað, en maður veit ekkert hvað er rétt í því.“

Haukur Þór Haraldsson
Haukur Þór Haraldsson mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert